Fyrir austan – hvar er það?

Halldóra Tómasdóttir skrifar:      Fimmtudaginn 20. júlí 2006 keyrðum við fjölskyldan upp úr Norrænu og fórum sem leið lá upp í Fljótsdalinn. Í Fljótsdalnum beið hús þar sem við ætluðum að eiga heima næstu árin. Fyrir þennan örlagaríka dag voru ferðir mínar um Austurland teljandi á fingrum annarrar handar.

 

 

Ég er alin upp í Danmörku, í Ólafsvík og á höfuðborgarsvæðinu. Á mínum yngri árum kynntist ég Snæfellsnesi og Vestfjörðum mjög vel. Snæfellsnesi vegna þess að þar bjuggum við og Vestfjörðum því þangað átti ég rætur að rekja. Einu kynni mín af Norðurlandi voru Reykir í Hrútafirði , þar sem ég lærði að synda af því að pabbi var að leggja í nýja skólahúsið (nú 35 ára gamalt) og  Vatnsdalur í A-Húnavatnssýslu þar sem frænka mín var bóndi. Akureyri og Eyjafjörður urðu ekki hluti af lífi mínu fyrr en ég kynntist manninum mínum en hann er ættaður þaðan. Það verður að segjast eins og er að Austurland var ekki til í mínum huga þegar ég var yngri. Ég vissi að sambýlismaður ömmu minnar var einhvers staðar að austan en í huga mínum og fjölskyldunnar var það álíka fjarlægur og illnálganlegur staður og sá staður sem talað er um í ævintýrum að sé fyrir austan mána og sunnan við sól.

  

Þegar ég kom í fyrsta sinn austur má segja að það hafi verið fyrir slysni. Þetta var sumarið 1988 og ég var á ferð með breska pennavinkonu. Mig langaði til að sýna henni eitthvað af landinu og landafræðivitund minni trú  datt mér í hug að keyra með hana norður í Vatnsdal til frænku minnar og fara svo aftur suður. Þegar til kom treysti ég mér ekki til að keyra Hvalfjörðinn til baka og endaði ferðalagið því með því að ég keyrði hringinn. Ég stoppaði í Kaupfélagi Héraðsbúa á Egilsstöðum og keypti mér vaðstígvél og tjaldaði svo í Atlavík, sem ég hafði að vísu heyrt minnst á í fréttum en þá aðeins í sambandi við útihátíðir!

  

Eftir að við fluttum hingað austur þá hefur Ísland stækkað um einn þriðja fyrir mér en þó eru enn margir staðir á Austurlandi sem ég á eftir að sækja heim. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig hægt er að bæta úr þessari gloppóttu landafræðikunnáttu minni og um leið koma í veg fyrir að börnin mín alist upp við jafn takmarkaða landafræði og ég. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og því er það að miklu leyti á ábyrgð foreldranna að kynna landið fyrir börnunum.

  

Fyrir tveimur árum síðan varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast tveimur sjálfboðaliðum frá Costa Rica. Þau voru ekki búin að vera lengi á landinu er þau festu kaup á gömlum fólksbíl og á honum ferðuðust þau um allt, hvort sem það voru óbrúaðar ár eða torfærir malarslóðar. Tími þeirra hér á landi var fyrirfram ákveðinn og frá fyrstu stundu voru þau ákveðin í að skoða eins mikið af landinu og mögulegt var. Þau ráku mig oft á gat þegar þau voru að spyrja út í leiðir eða staðhætti á hinum ýmsu stöðum og þá varð mér ljóst hve lítið ég vissi um eigið land. Um allt land eru perlur sem okkur ber skylda til að kynnast og varðveita.

    

Nú þegar gengi íslensku krónunnar er eins og það er, er líklegt að margir ferðist innanlands í sumar. Ég verð ein þeirra og þegar ég lít aftur til þessa árs vona ég að ég geti sagt: Þetta var árið sem ég kynntist landinu mínu betur og þá sérstaklega Austurlandi.

(Samfélagsspegill Austurgluggans 12. mars 2009)

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.