Ófært og veður fer versnandi

Það er enn vetur á ísa köldu landi þrátt fyrir að nokkrir hugrakkir tjaldar hafi tyllt sér niður á Austurlandi sem fyrstu vorboðar ársins. Björgunarsveitir hafa haft næg verkefni undanfarna daga við að bjarga ökumönnum úr sköflum á vegum úti. Þakka ber björgunarsveitarfólki óeigingjarnt starf sitt í þágu almannaheilla, þessu fólki sem dag og nótt er tilbúið að fara út í verstu aðstæður til að rétta samborgurum í vanda hjálparhönd.

Um miðja síðustu viku var ég stödd á Eskifirði og komst svo hvorki lönd né strönd með bílinn minn þegar ég ætlaði að halda yfir á Hérað. Ég braust yfir á Reyðarfjörð, en þaðan fékk ég far við þriðja mann rétt áður en Fagridalur lokaðist, með starfsmannarútu Alcoa Fjarðaáls. Takk fyrir farið ágæti rútubílstjóri sem ókst þennan dag. Um helgina var ég svo stödd á Akureyri og á sunnudag gerði glórulausan byl um allt Norðurland, svo ófært var austur um. Fólk á einhverjum sextíu bifreiðum sat fast  í höfuðstað Norðurlands og komst af stað austur snemma á mánudagsmorgun, þegar veður hafði lægt og byrjað var að moka. Ég flaug raunar frá Akureyri og nærfellt hringinn í kringum landið til að komast heim til barnanna á sunnudag og borgaði fyrir það tuttugu þúsund kall sem ég hefði vel getað hugsað mér að nýta í eitthvað annað. Hvað um það.

  

Það reynir á aðlögunarhæfni landsbyggðarfólks þegar veðurfar hamlar för og oft á tíðum daglegu starfi fjölskyldna. Ófærð á vegum er snar þáttur í vetrarlífi Austfirðinga líkt og annarra landsmanna. Þrátt fyrir ötulan snjómokstur (hugsið ykkur mennina sem sitja einir í stýrishúsum plóga og blásara svo klukkustundum skiptir í vondum veðrum og glíma við snjóalögin, þeim ber líka að hrósa), lokast leiðir og ekkert fæst að gert fyrr en veðri slotar. Það sem við, ökuþórarnir, getum gert er að sýna sæmilega skynsemi og hlýða því að halda kyrru fyrir þegar Vegagerðin er búin að melda leiðir ófærar og veðurútlit er slæmt. Það hefur margsannað sig að heimurinn ferst ekki svo neinu nemi þó við hinkrum. Og ef menn eru svo óheppnir að festa sig í ófærð er þumalputtareglan sú að halda kyrru fyrir í bílnum eða við hann uns hjálp berst. Svo er bara að anda rólega.

Steinunn Ásmundsdóttir

(Leiðari Austurgluggans 12. mars 2009)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.