Fljótsdalshérað til framtíðar

Árin sem ég bjó í Reykjavík leitaði hugur minn ávallt heim á Fljótsdalshérað. Ég segi heim, því þó að fjölskylda mín hefði flutt búferlum til Reykjavíkur, leit ég alltaf á það sem tímabundið ástand. Ég ætlaði mér alltaf að flytja aftur austur. Nú eru 20 ár síðan ég kom aftur og ég hef ekki hug á að flytja héðan aftur. Mér hefur alltaf þótt fegurst hér og best að vera.  

 

sigrunblondal.jpgMálin hafa æxlast þannig að ég býð mig fram til starfa í sveitarstjórn fyrir Samtök félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði, Héraðslistann. Það þykir mörgum sem það muni vera lítið spennandi að taka sæti í sveitarstjórnar á þessum tímum niðurskurðar og aðhalds. En ég vil líta á það sem spennandi tækifæri. Það eru mörg verkefni sem hægt er að vinna þó að ekki sé mögulegt að hefja nýbyggingar eða fara í fjárfrekar framkvæmdir.  

Að mörgu er að hyggja í innra starfi stofnana sem starfa á vegum sveitarfélagsins og við eigum sérstaklega að kanna möguleika á aukinni samvinnu. Íbúar í sveitarfélaginu voru um áramótin síðustu áramót 3.465.  Við þurfum því að sníða okkur stakk eftir vexti og nýta sem best það sem við höfum. Það er óhjákvæmilegt að fara vel yfir starfsemi allra sviða sveitarfélagsins. Fyrirfram er ekki hægt að segja til um það hvort segja eigi upp þessum eða hinum starfsmanni enda snýst þetta ekki um einstaklinga heldur þau verkefni sem sveitarfélagið þarf að leysa. Frambjóðendur Héraðslistans telja hins vegar að auka megi samvinnu milli sviða og að þannig muni vera hægt að ná fram sparnaði. 

Ferðaþjónusta er mikilvæg atvinnugrein á Fljótsdalshéraði. Á því sviði eru mörg tækifæri en ég vil líta sérstaklega til möguleika í sambandi við að markaðssetja svæðið með áherslu á jarðfræði, dýralíf og skógrækt. Nágrannasveitarfélög okkar hafa unnið framúrskarandi starf við að auglýsa afmarkaða þætti sem höfða til áhugamanna víða um heim. Við eigum að vera í góðu samstarfi við þau um að vinna að þessum  verkefnum og nýta okkur þannig sérstöðu okkar. Fuglar, fjöll og hreindýr eru auðlindir sem eru til staðar og við eigum að auglýsa það sem við eigum í bæjarhlaðinu. 

Við getum boðið ferðamönnum og áhugafólki um útivist frábæra aðstöðu allan ársins hring. Fólk á svæðinu hefur í auknum mæli farið að stunda skíði og á Fjarðarheiði og í Stafdal verður í framtíðinni afar spennandi útivistarsvæði. Þar erum við í samvinnu við Seyðfirðinga.  Í tengslum við vetrarferðamennsku má sjá fyrir sér vetrarferðir á hálendinu, t.d. jeppaferðir inn á Fljótsdalsheiði og fleira í þeim dúr. Aðalatriðið er að fá hugmyndir og vinna þær áfram þannig að þær verði að raunveruleika. Dæmi um frábæra hugmynd sem hrundið hefur verið í framkvæmd eru tónlistarsumarbúðir á Eiðum en þar bjóða Charles Ross og Sunchana Slamnig upp á skemmtilegt samspil tónlistar, útivistar og samveru með fjölda dýra. Óvenjuleg samsetning en stórkostleg upplifun fyrir börn og unglinga sem reynt hafa. Þar nýtist yndislegt umhverfi og ónotað húsnæði til að skapa nýtt frístundatilboð. Aðrir eldhugar hafa farið af stað með annars konar verkefni og við eigum að styðja við bakið á öllum góðum hugmyndum.

Hvað skiptir þá máli næstu fjögur ár? Það skiptir auðvitað meginmáli að íbúar á Fljótsdalshéraði hafi næga atvinnu og að velferð íbúanna sé tryggð. Því þarf ný sveitarstjórn að vinna mjög ötullega að því að afla verkefna á svæðið. Sveitarfélaginu ber að búa þannig að íbúum að fólk sjái sér hag í því að flytjast hingað. Það er svo að miklu leyti í höndum íbúanna hvernig þeir spila úr þeim tækifærum sem svæðið býður upp á. Samtök félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði, Héraðslistinn, bjóða fram krafta sína til að byggja sveitarfélagið enn frekar upp. Við teljum að mörg tækifæri bíði okkar á næstu árum en til þess að þau nýtist okkur þurfum við að vinna saman og hafa trú hvert á öðru.  Við trúum á Fljótsdalshérað til framtíðar.

Höfundur skipar fyrsta sætið á framboðslista Héraðslistans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.