Eigum við okkur framtíð?

Ásta Hafberg Sigmundsdóttir skrifar:    Eftir hrun bankanna í október síðastliðnum höfum við sem búum hér í þessu landi þurft að taka margt til endurskoðunar. Spurningar sem hafa vaknað hjá mér persónulega eru til dæmis:  Hvers vegna voru gildin sem okkur voru kennd s.s heiðarleiki, réttlæti og styrkur ekki í hávegum höfð?

 

Hvar töpuðum við sjálfsmynd okkar sem þjóð og fórum að eltast við hluti sem gera líf okkar ekki betra?

 

Hversvegna hefur ekki verið fyrirtækja og atvinuuppbygging í landinu svo um munar síðustu 20 árin?

 

Hversvegna höfum við ekki nýtt betur okkar eigið hugmynda og hugvitsfólk í þeirri uppbyggingu?

 

Hvað fór úrskeiðis?

 

Þessar spurningar og margar fleiri hafa flögrað um í höfðinu á mér eftir því sem tíminn líður og staðreyndin um það að landið sé komið á vonarvöl verður skýrari og skýrari.

 Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að núna er tímapunkturinn þar sem við verðum að segja: “nú eða aldrei” annað hvort notum við þetta hrun til jákvæðrar framtíðaruppbyggingar fyrir landið í heild eða hjólum í sama farinu um ókomin ár.Við eigum svo margt hér í þessu landi sem hægt er að virkja og þá á ég ekki bara við vatn. Það fyrsta sem við gætum gert til að koma einhverju störfum af stað er að leyfa smábátaveiðar. Þetta er gömul tugga en engu að síður tugga sem er hægt að virkja frá einum degi til annars. Smábátarnir eru til og fólkið sem á þá er margt orðið atvinnulaust, hvers vegna ættum við að halda þessu fólki á atvinnuleysisbótum þegar mögleikinn er fyrir hendi að það geti fætt og klætt sig og sína á þennan hátt?

Við verðum að horfa fram á veginn og nýta alla þá möguleika sem til staðar eru, að fara í áframhaldandi stóriðju á núverandi tímapunkti er aðeins hægt að kalla endanlegt hugvitslegt gjaldþrot af hálfu stjórnvalda.

 Það lýsir líka vanhugsun gagnvart þjóðinni í landinu. Við eigum mjög vel menntað fólk og við eigum hugmyndaríkt og úrræðagott fólk, hvers vegna virkjum við það ekki? Á Íslandi eru nú þegar fyrirtæki í hinum ýmsu geirum sem með smá aðhaldi og stuðningi af hálfu stjórnvalda gætu gert mun meira en þau gera í dag.  Við getum byggt miklu meira upp hvað varðar ferðaþjónustu, matvælaiðnað, húsgögn, fatnað, tækni og náttúrulyf og krem.

Við þurfum núna að fara í þá grunnvinnu sem hefði átt að vera búið að fara í fyrir löngu síðan til uppbyggingar heilsusamlegrar flóru fyrirtækja í landinu.

Við eigum nú þegar stuðningsbatterí sem er hægt að draga markvisst inn í þá vinnu, en það eru allir sjóðirnir okkar og atvinnuþróunarfélög víðsvegar um landið. Einnig eigum við útflutningsráð sem væri hægt að nýta betur í kynningastarfi á íslenskum fyrirtækjum og vörum erlendis. Eins og staðan er í dag þurfum við að virkja mannvit okkar og auð og nýta markvisst okkur til framdráttar og uppbyggingar.

Við þurfum að gera það áhugavert fyrir íslensk fyrirtæki að framleiða sína vöru innanlands til útflutnings, þannig getum við hægt og rólega byggt upp peningaflæði inn í landið sem við þurfum svo mjög á að halda.

Í dag er ekki vinsælt erlendis að setja nafn sitt við íslensk útrásarfyrirtæki eða eitthvað tengt því og þetta er ekki skoðun sem við snúum við nema taka skref í átt frá útrásinni og sýna það og sanna að í okkur býr dugur til að takast á við framtíðína á ábyrgan og raunhæfan hátt. Til þess verðum við að geta gert skammtíma og langtímaáætlanir sem starfa hlið við hlið í þjóðfélaginu. Áætlanir sem byggjast á auðlindum okkar og hugviti, áætlanir sem miðast ekki bara við eitt kjörtímabil og áætlanir sem setja okkur sem þjóð í fyrsta sæti í uppbyggingu til framtíðar.

Í dag er ekki staðan þar sem við getum hoppað yfir girðinguna þar sem hún er lægst og vonað að þetta reddist. Höf. Ásta Hafberg S.Verkefnastjóri1.sæti frjálslynda flokksins í NA-kjördæmi

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.