Ábyrg fjármálastjórn í Fljótsdalshéraði

D-listinn í samstarfi við L-listann, hefur stýrt sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði á einu mesta uppbyggingar- og framfaraskeiði sveitarfélagsins frá upphafi. Þótt farið sé aftur til stofnunar Egilsstaðakauptúns árið 1945, finnst vart það tímabil sem jafnmiklar breytingar og jafnmikið uppbyggingarstarf hefur átt sér stað  og á síðustu 8 árum. Mikil fólksfjölgun hefur orðið í sveitarfélaginu en fjölgað hefur um 700 manns í tveimur stærstu þéttbýliskjörnum þess. Hlutfallslega þýðir þetta að okkur hefur fjölgað um rúm 20% á þessum árum en til samanburðar má nefna að  Reykvíkingum hefur fjölgað um rétt rúm 5% á þessu sama tímabili. Þessi fjölgun hefur kallað á verulegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins, sem að stórum hluta hafa verið fjármagnaðar með lántöku, fjármögnun sem síðan hefur orðið okkur mun dýrari en lagt var upp með í kjölfar efnhagshrunsins 2008. Til þessara staðreynda verður að líta þegar fjárfestingarstefna sveitarfélagsins og núverandi skuldastaða er skoðuð og hún gagnrýnd.

 

kalli_skattur_gummi_ola_xd.jpgSkuldastaða sveitarfélagsins hefur verið gerð að umtalsefni fjölmiðla en eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga tók rekstur sveitarfélagsins til athugunar í kjölfar skila á ársreikningi fyrir árið 2008. Með bréfi rituðu þann 13. apríl sl. gefur nefndin það álit sitt út, að hún muni ekki aðhafast frekar í málinu þar sem gert sé ráð fyrir viðsnúningi í rekstri sveitarfélagsins. Nefndin mun þó fylgjast áfram með framvindu rekstrar- og fjárhagsáætlunar.

Í ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2009 kemur fram verulegur viðsnúningur á rekstri  á milli ára og er útkoman nokkuð í samræmi við áætlanir að undandskildum fjármagnsliðum sem eru hærri, þar sem opnberar spár um verðlagsþróun gengu ekki eftir. Í árslok 2009 námu skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins kr. 1.919 þús per íbúa í samstæðu A- og B hluta sem er í takt við áður opinberaða útgönguspá sem kynnt var með fjárhagsáætlun fyrir árið 2009. Samþykkt fjárhagsáætlun næstu 3ja ára gerir síðan ráð fyrir jákvæðum rekstrarafgangi öll árin 2010 til 2012 og að hann fari vaxandi. Þannig gerir áætlunin ráð fyrir að heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélgsins lækki sem hlutfall af tekjum um 20% á þessu fjögurra ára tímabili en þá er ekki tekið tillit til frekari styrkingar á gengi íslensku krónunnar.

Þrátt fyrir verulega bætta afkomu og væntingar um enn frekari rekstarbata má ljóst vera að leita þarf frekari leiða til að lækka skuldastöðu sveitarfélagsins. Það verður gert með hækkun tekna, lækkun útgjalda og hugsanlega sölu eigna í kjölfar hagræðingar. Vænta má að málarekstur sveitarfélasins þess efnis að vatnshlunnindi vegna Kárahnjúkavirkjunar verði metin til fasteignamats komi til með að skila fasteingnaskatti til sveitarfélagsins á allra næstu árum. Það mál hefur verið í vinnslu hjá sveitarféalginu í nokkur ár og  nýlegir áfangasigrar á þeirri vegferð hafa aukið bjarsýni um jákvæða niðurstöðu í þeim málum. Þá hafa tekjur sveitarfélagsins af framlögum úr jöfnunarsjóði verið skertar verulega á undanförnum árum en vænta má nokkuð hærri framlags á yfirstandandi ári og því næsta. 

Það er okkur ljóst, að ekki verður gengið langt í niðurskurði útgjalda án þess að það komi niður á veittri þjónustu. Einhverju má þó enn hagræða og teljum við í því sambandi, að farsælast sé að stjórnsýsla sveitarfélagsins sé öll undir sama þaki sem og að skoðað verði með opnum hug mögulegur ávinningur af því að sameina stjórnun stofnanna þannig að auðveldara verði að ráðstafa fjármunum, verkefnum og mannafla eftir þörfum. Það er skoðun okkar, að með slíkum ráðstöfunum, megi draga úr launakostnaði án þess að það komi niður á þjónustu við íbúa. Þá verður að gera ríkar kröfur til allra stjórnenda sveitarfélagsins um að koma að og fylgja eftir þeim rekstarmarkmiðum sem sett eru og ekki verður liðið að þeir sem ábyrgð bera, geti átölulaust virt að vettugi þann fjárlagaramma sem bæjarstjórn hefur sett þeim.

Við sjálfstæðismenn erum stoltir af verkum okkar og vísum á bug gagnrýni um offjárfestingar á síðustu árum. Fjárfestingar hafa að stærstum hluta farið í uppbyggingu leiksskóla, grunnskóla, lóðaframkvæmdir og skipulagsmál og menn geta spurt sig að því hvernig hefði verið hægt að taka við þessari aukningu fólks án þess að fara í þessar framkvæmdir. Af henni hefði þá sennilega aldrei orðið.

Gagnrýni á fjárhag og fjárfestingar sveitarfélagsins eru sjálfsagðar en þær verða að vera málefnalegar því annars eru þær marklausar. Við leggjum okkar góðu vinnu fram í þessa kosningarbaráttu og erum þess fullvissir, að þú kjósandi góður, teljir þær fjárfestingar sem farið var í hafi skjótið styrkari stoðum undir grunnþætti samfélagsins á Fljótsdalshéraði og  eiga eftir að skila sér í auknum tekjum til framtíðar og þannig leggja grunn að enn stærra og blómlegra samfélagi.

Höfundar skipa 1. og 3. sæti framboðslista Sjálfstæðismanna á Héraði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.