36 Brýnasta hagsmunamál Austfirðinga.

Það er ljóst , að þær framkvæmdir við virkjanir og álver í Reyðarfirði sem ýmist eru hafnar eða í undirbúningi , kalla á aukna uppbyggingu á ýmsum sviðum. Má þar nefna skólamál , félagsmál , heilbrigðismál og reyndar líka ferðamál.

 

En það gildir einu til hvaða málefnasviðs horft er , árangur næst ekki nema okkur takist að tengja byggðirnar á  Mið – Austurlandi , fjarðabyggðirnar og Héraðið mun betur saman. Og það verður ekki gert nema á einn hátt.  Með jarðgangagerð.


Við getum lært af frændum okkar Færeyingum á þessu sviði. Þeir eru nýbúnir að gera göng undir Vestmannasund og þau hleyptu auknu lífi í húsbyggingar og önnur umsvif á Vogey. Nú eru þeir að ljúka við göng yfir í Gásadal utan við Sörvog  til að koma íbúum dalsins , 9 talsins , í vegasamband. Og í undirbúningi eru 6 km göng undir sundið milli Austureyjar og Borðeyjar þannig  að unnt verði að aka frá Þórshöfn til Klakksvíkur án þess að taka bílferju.


Færeyingar eru afskaplega ánægðir með þessar framkvæmdir , enda er þeim ljóst að í nútímasamfélagi þarf fólk að vera í vegasambandi við umhverfi sitt. Því miður virðast viðhorfin í íslensku samfélagi , amk hjá stjórnvöldum , vera önnur og neikvæðari.
Eyjasundin í Færeyjum eru ígildi fjallanna sem aðskilja byggðarlögin á Mið-Austurlandi og okkur er engu meiri vandi á höndum en frændum okkar að leysa þennan vanda. Vilji er allt sem þarf.


Hættum að klöngrast yfir fjöllin í meira en 600 metra hæð.Komum okkur inn í nútímann og notum stórbætta og mun ódýrari tækni en fyrr til að bora í gegnum fjöllin. Tengjum byggðirnar saman og þá erum við komin með glæsilegt svæði ,sem er atvinnuleg , menningarleg og  félagsleg  heild . Mun   eftirsóknarverðara til búsetu og framkvæmda en það er sundurslitið af fjöllum í dag. Raunverulegur kostur sem mótvægi við bæði Eyjafjarðarsvæðið  og höfuðborgarsvæðið.


Fyrir rúmu ári hittist hópur áhugafólks um jarðgangagerð  á fjölsóttum fundi í Mjóafirði. Þar voru stofnuð samtök sem fengu nafnið “Samtök áhugafólks um jarðgangagerð  á Mið – Austurlandi” ,stytt í  SAMGÖNG.
Félagar í samtökunum eru orðnir á annað þúsund og stjórnin hittist reglulega og hefur unnið ötullega að því að kynna hugmyndir sínar. Útbúið hefur verið kort og því dreift um allt Austurland. Á þessu korti er ekki endilega verið að sýna nákvæmlega hvar einstök göng munu liggja heldur verið að sýna það svæði sem við viljum tengja saman. Auðvitað viljum við líka tengjast til suðurs , en þar sem vinna er hafin við  Fáskrúðsfjarðargöngin eru þau ekki með á myndinni.


Á kortinu sjást glöggt hinar miklu styttingar vegalengda milli staða. Í dag er 100 km akstur frá Seyðisfirði til Neskaupstaðar , en yrði 26 km með göngum. Styttingin er hvorki meiri né minni en 74 km. Og núna er 71 km milli Egilsstaða og Neskaupstaðar ,en yrði 43 með göngum.Styttingin er heilir 28 km. Það er auðvelt að ímynda sér hin miklu  og jákvæðu  áhrif , sem þessi stytting hefði á samskipt i byggðarlaganna á öllum sviðum.


Ég beini því til allra Austfirðinga að kynna sér þetta kort , gerast félagsmenn í SAMGÖNG ( engin árgjöld )  og vinna með okkur að því að hrinda þessu brýnasta hagsmunamáli okkar Austfirðinga í framkvæmd. Sem allra , allra fyrst.
FRAMTÍÐIN BÍÐUR EKKI OG ÞAÐ ER HÚN SEM ER AÐ VEÐI.
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar