Bæjarsátt um bæjarstjóra

Eitt fyrsta verk nýrrar bæjarstjórnar verður ráðning bæjarstjóra. Í síðustu grein fórum við yfir það hvernig við hugsum okkur að efla megi lýðræðið með því að auka möguleika kjörinna fulltrúa til að takast á við þá pólitísku ábyrgð sem þeim er lögð á herðar að loknum kosningum.

 

fjardalistinn_efstu_fjorir.jpgÞað orkar ef til vill tvímælis að leggja svo til að bæjarstjóri verði ekki ráðinn úr röðum kjörinna fulltrúa. Hins vegar er það svo að ekki er mjög raunhæfur möguleiki á að eitt framboð fái hreinan meirihluta í kosningunum þótt auðvitað sé það markmið Fjarðalistans að fá sem flesta bæjarfulltrúa. Þetta gerir að verkum að ráðning bæjarstjóra verður að öllum líkindum samkomulagsatriði tveggja framboða.

Það væri hrokafullt að stilla upp ákveðnu bæjarstjóraefni sem væri svo „troðið“ upp á hugsanlega samstarfsaðila í nýjum meirihluta. Betra er að koma að borðinu með uppskrift að því hvar áherslur flokksins liggja varðandi bæjarstjóraráðningu. Við í Fjarðalistanum höfum einmitt ákveðna uppskrift í huga.

Við leggjum áherslu á að leitað verði til ákveðinna aðila í samvinnu við annað framboð og jafnvel reynt að ná bæjarsátt um þá manneskju sem fyrir valinu verður. Verkefnin framundan eru svo vandasöm að mikilvægt er að sem mest samstaða og sátt sé um ráðningu bæjarstjóra .

Í Fjarðabyggð eru þónokkrir aðilar sem hafa þá þekkingu og reynslu sem þarf til að verða bæjarstjóri. Við teljum mikilvægt að nýta þann mannauð sem er á svæðinu og hefja leit að bæjarstjóraefni í heimabyggð en útilokum þó ekki að leitað verði annað eftir kröftugri manneskju. Við teljum mikilvægt að verðandi bæjarstjóri hafi góða tilfinningu fyrir okkar samfélagi, þekki það vel, skilji styrkleika þess og veikleika.

Við leggjum þunga áherslu á það sem kom fram í síðustu grein okkar um eflingu bæjarfulltrúastarfsins: Pólítísk ábyrgð á að vera hjá bæjarfulltrúunum enda er það lýðræðislegt. Fólkið kýs bæjarfulltrúa til þess að fara með þetta vald. Bæjarstjóri á fyrst og fremst að vera framkvæmdastjóri þeirra verkefna sem kjörnir fulltrúar leggja upp með. Því er þekking og reynsla af fjármálum mjög mikilvægur þáttur.

Okkar stefna er því skýr í þessum efnum: Eflum kjörna fulltrúa í störfum sínum og ráðum fagmanneskju með þekkingu á okkar samfélagi í æðstu embættisstöðuna.

Greinarhöfundar skipa efstu fjögur sætin á Fjarðalistanum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.