Austurland mekka karnivalsins

 

Hugmynd er uppi á Austurlandi um að stofna séraustfirskan karnivalhóp sem myndi prýða allar bæjarhátíðir fjórðugnsins í framtíðinni og þannig mynda samnefnara fyrir þær. Slíkur karnivalhópur gæti einnig farið víðar um á Íslandi. Engin hefð er fyrir karnivölum hérlendis, nema ef vera kynni litrík ganga samkynhneygðra á hverju ári.

fidget_feet.jpg

Lára Vilbergsdóttir og Guðjón Sigvaldason fóru fyrir skömmu til írska bæjarins Clifden í Connemara á Vestur-Írlandi á 14 daga bæjarhátíð sem svipar til Ormsteitis. Lára og Guðjón unnu þar með karnivalhóp í eina viku, en írskt karnivalfólk hefur einmitt komið að undirbúningi karnivalskrúðgöngu Ormsteitis sl. tvö ár.

Lára segir drauminn vera að stofna kraftmikinn austfirskan karnivalhóp sem geti farið milli bæjarhátíða á Austurlandi. ,,Hugmyndin er að byggja upp stóran karnivalhóp á Austurlandi sem kæmi upp grunnbúnaði sem nýst gæti öllum bæjarhátíðum,“ segir Lára. ,,Hægt væri að fara svo dæmi sé tekið á Borgarfjörð og virkja samfélagið þar í að búa til álfaþema og sauma búninga, en við kæmum með grunnbúnaðinn, þ.e. uppblásnar skreytingar og álfaþemað væri sett þar við. Næst væri svo kannski hægt að fara á Fáskrúðsfjörð og virkja franska hefð. Svona mætti áfram telja. Eftir einhver ár yrði  hægt að búa til eina stóra Austfjarðagöngu. Allir myndu græða á þessu og Austurland verða mekka karnivalanna á Íslandi.“

Verkefnið er eins og stendur samstarf Ormsteitis og Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs.

 Loftfimleikar í vor 

Með Írunum sem komu með karnivalfólkinu á Ormsteiti var loftfimleikahópurinn Fidget Feet Performance Co. -  Madam Silk. Hann hyggst koma til Austurlands með námskeið og sýningu á vegum Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs í vor og segir Lára það mikið tilhlökkunarefni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.