Auglýst eftir forstöðumanni Rannsókna- og fræðaseturs HÍ á Austurlandi

Stjórn Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands hefur auglýst laust til umsóknar starf forstöðumanns Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi, sem staðsett er á Egilsstöðum. Setrið er vettvangur fyrir samstarf  Háskóla Íslands við sveitarfélög á Austurlandi, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga. Það starfar m.a. í náinni samvinnu við Þekkingarnet Austurlands.

hi.jpg

Meginhlutverk setursins er að efla starfsemi Háskóla Íslands á Austurlandi með rannsóknum á samfélagsþróun í staðbundnu og alþjóðlegu samhengi. Setrinu er jafnframt ætlað að stuðla að margvíslegri háskólakennslu á Austurlandi og að þar verði haldin norræn og/eða alþjóðleg námskeið.


Jafnframt því að stunda eigin rannsóknir skal forstöðumaður hafa umsjón með starfsemi setursins, starfsfólki, fjármálum og daglegum rekstri. Forstöðumaður þarf að geta tekið að sér að leiðbeina háskólanemum í framhaldsnámi og aðra kennslu á háskólastigi og skal halda skrá yfir þá háskólamenn sem hafa aðstöðu í setrinu.

Í auglýsingu um starfið kemur fram að umsækjendur skulu hafa lokið meistara- eða doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla eða annarri sambærilegri menntun og hafa sérþekkingu á rannsóknarsviðum setursins um atvinnu- og byggðaþróun. Þá er nauðsynlegt að umsækjendur hafi stundað sjálfstæðar rannsóknir. Reynsla af alþjóðasamstarfi er æskileg. Umsækjendur þurfa að hafa frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, gott vald á ensku og íslensku og lipurð í mannlegum samskiptum.

Forstöðumaður er starfsmaður Háskóla Íslands en mun hafa starfsaðstöðu á Egilsstöðum og gegna starfi sínu þaðan. Um fullt starf er að ræða. Umsóknarfrestur er til 14. apríl 2009.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.