Aldrei verið mikilvægara að hlusta á ungt fólk

Þrátt fyrir ungmennaráð, ráðstefnur og fundi um ungmenni og almenna vitundarvakningu um það að ungmenni vilji láta heyra í sér, þá er oftar en ekki talað um okkur en ekki við okkur. Ungmennum líður oft eins og þau eigi ekki stað í samfélaginu og séu hálfgerðar geimverur sem fljóta bara framhjá í önnum dagsins.

Sameining sveitarfélagana er nú gengin í gegn en hvað þýðir það fyrir ungmenni? Fáum við loksins aukið háskólanám hingað austur? Hvað um ungmenni undir 18? Hvað um ungmenni með annan menningarbakgrunn? Verða heimsmarkmiðin innleidd? Hvað með barnasáttmálann? Verður ýtt undir störf án staðsetningar svo við þurfum ekki að flytjast að heiman? Verður haft samráð við okkur? Hvar eigum við stað í þessu nýja sveitarfélagi? Hvar er unga fólkið?

Við búum við mjög góðar aðstæður en það er alltaf hægt að gera betur og hér eru mörg sóknarfæri. Svo lengi sem það er einhver tilbúinn að hlusta af alvöru tel ég að raddir okkar geti alltaf haft áhrif. Okkar framtíð er í húfi og við eigum að geta sagt okkar skoðanir varðandi þessi málefni.

Ræðið við okkur, fræðið okkur, fáið okkar sjónarhorn, og hlustið. Ég skora á ykkur að opna umræður við ungmenni áður en teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á líf okkar. Við biðjum ykkur að gleyma ekki mikilvægi þess að hugsa fram í tímann og að fjárfesta í framtíðinni sem er okkar.

Ungmenni verða að vera hluti af lausninni. Við erum framtíðin. Það verður verkefni okkar, barnanna þinna, að takast á við afleiðingar þeirra ákvarðana sem teknar eru í dag. Þess vegna er mikilvægt að við fáum rödd meðal þeirra sem eru að móta samfélög okkar og löggjöfina sem okkur er gert að búa við.

Það er þess vegna sem ég ákvað að grípa tækifærið þegar mér bauðst að taka 4. sæti á framboðslista Vinstri grænna í sveitarstjórnarkosningunum í nýju sameinuðu sveitarfélagi. Mér er sýnt mikið traust og ég er staðráðin í að standa undir þessu verkefni og nýta rödd mína í þágu ungs fólks á Austurlandi.

Kristbjörg Mekkín Helgadóttir, menntaskólanemi, í 4. sæti á framboðslista VG.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.