Áfram öfluga atvinnuuppbyggingu í Fjarðabyggð

Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf er undirstaða velferðar, forsenda framfara og fólksfjölgunar. Öflugt atvinnulíf kallar á uppbyggingu innviða, íbúðahúsnæðis og bættar samgöngur sem er mikilvægt í fjölkjarna bæjarfélagi.

Fiskeldi er sú atvinnugrein sem er í mestum vexti á Íslandi í dag. Fagna ég uppbyggingu laxeldis í Fjarðabyggð og þeim störfum sem það skapar í bæjarfélaginu okkar, bæði beinum störfum og afleiddum störfum sem þjónusta laxeldið. Það er mikilvægt að atvinnutækifærum fjölgi á Austurlandi því öflugt atvinnulíf er undirstaða eftirsóknar í búsetu.

Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði hefur mikil áhrif á uppbyggingu á Austurlandi, skapar fjölda manns atvinnu og gefur af sér til samfélagsins með ýmsum hætti. Vinnustaður Alcoa Fjarðaáls er stór ástæða þess að ég flutti aftur á heimaslóðir frá höfuðborgarsvæðinu. Ég fór að heiman til að sækja nám eins og margt fólk á Austurlandi og var síðan komin í góða vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Þegar kom að því að stofna fjölskyldu og velja búsetu til frambúðar þá spilaði atvinna í álverinu stórt hlutverk að við ákváðum að flytja á Eskifjörð, þar sem ég er uppalin og mín fjölskyldubönd eru. Eiginmaðurinn fékk vinnu í álverinu – ef ekki hefði verið fyrir atvinnutækifæri í Fjarðabyggð, væri alls óvíst að ég byggi þar í dag.

Við eigum að horfa björtum augum til framtíðar og fagna og ýta undir meiri atvinnuuppbyggingu. Einungis með sterku fjölbreyttu atvinnulífi fyrir alla verður Fjarðabyggð ákjósanlegur staður til búsetu.

Höfundur er snyrtifræðingur og rekstraraðili og skipar 12.sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.