Af hverju er ekki ljósleiðari í mínu sveitarfélagi?

Á undanförnum árum hefur krafan um góðar fjarskiptatengingar orðið æ háværari enda sýnt að slíkar tengingar eru undirstaða búsetu, byggðaþróunar og atvinnureksturs.Sumir ganga svo langt að segja að góð fjarskiptaþjónusta sé landsbyggðunum jafn mikilvæg og góðar samgöngur.

Stjórnvöld virðast hafa gert sér grein fyrir þessu því árið 2015 kynnti þáverandi forsætisráðherra skýrslu starfshóps innanríkisráðherra: „Ísland ljóstengt“ - Landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða, með pompi og prakt. Það var megintillaga starfshópsins að skilgreina aðgang að háhraða nettengingu sem grunnþjónustu sem standa skyldi öllum landsmönnum til boða, óháð búsetu. Með háhraða nettengingu er miðað við 100 Mb/s eða meira.

Starfshópurinn lagði til að farin yrði leið tvö, samstarfsleið – landsátak í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Í samstarfsleiðinni átti ábyrgð og skipulagning að vera á hendi ríkisins. Sveitarfélög og ríkið áttu í sameiningu að ákveða forsendur fyrir forgangsröðun framkvæmda með hliðsjón af þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017 og innviðamarkmiðum fjarskiptaáætlunar. Skipulag framkvæmda og fjármögnun átti að móta og innleiða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök fyrir hönd heimamanna.

Sveitarfélög áttu að tryggja tiltekna lágmarksþátttöku lögheimila og skuldbindingar, um 250.000 króna stofnframlag frá hverju lögheimili. Sveitarfélögin máttu einnig taka að sér að greiða þetta stofnframlag. Framkvæmdaaðili skyldi annast innheimtu stofnframlaga þegar verkefni væri komið á framkvæmdastig. Hverju sveitarfélagi átti að vera heimilt að greiða stofnframlagið að hluta eða að fullu. Ríkið skyldi skuldbinda sig til að fjármagna sinn hluta af verkefninu á móti beinu framlagi sveitarfélaga og óbeinu framlagi markaðsaðila og var beint framlag ríkisins áætlað 3–4 milljarðar króna.

Starfshópurinn taldi ljóst að fjárhagsstaða óljósleiðaravæddra sveitarfélaga væri mismunandi. Ef frá væru talin sveitarfélög þar sem umfang uppbyggingar yrði óverulegt, væri fjármögnun í fæstum tilfellum án fórna og nánast útilokuð hjá þeim verst settu, hvort heldur litið væri til eigna- eða skuldastöðu. Staðan væri því einfaldlega sú að verst settu sveitarfélögin myndu seint, ef nokkurn tíma, geta ráðið við það verkefni að fjármagna uppfærslu á fjarskiptainnviðum sínum á markaðsbrestssvæðum þannig að það uppfylli framtíðarþarfir íbúa og atvinnulífs. Því þótti eðlilegt að við forgangsröðun framkvæmda sem nytu stuðnings ríkisins að horfa fyrst til langtímalausna á þeim svæðum sem verst eru sett. Í því sambandi er hægt að horfa til sjónarmiða í gildandi byggðaáætlun, sem og öryggis stofnnetsins. Þá yrði að stefna að því að byggja upp aðgangsnet í dreifbýli sem almennt uppfyllti kröfur næstu kynslóðar aðgangsneta á þeim svæðum landsins þar sem uppbygging slíkra kerfa væri ekki fyrirhuguð á markaðslegum forsendum.

Brostnar vonir

Það er því ekki að undra að íbúar um allt land og forsvarsmenn sveitarfélaga hafi horft fram á bjarta tíma því samkvæmt yfirlýsingum ráðherra áttu 99,9% heimila að hafa tengst ljósleiðara fyrir árið 2020. Beðið var með óþreyju eftir því að til fyrstu úthlutunar árið 2016 kæmi í þessu mikilvæga verkefni. Það er vægt til orða tekið að sú leið sem varð fyrir valinu og kynnt var í byrjun árins af hinu opinbera hafi valdið vonbrigðum út um landið. Í fyrsta lagi skal nefnt að fjármunir til verkefnisins voru afskaplega takmarkaðir, 450 milljónir til alls landsins og ákveðið fjármagn eyrnamerkt ákveðnum landsvæðum. Til samanburðar má nefna að kostnaður við að ljósleiðaravæða Fljótsdalshérað allt er áætlaður um 500 milljónir króna en heildarfjármagn til Norðausturkjördæmis voru 109 milljónir. Í öðru lagi, var ákveðið að fara ekki leið 2 sem farið var yfir hér að framan, heldur leið 1. Sú leið, svokölluð sveitarfélagaleið, byggði samkvæmt skýrslu starfshópsins, á frumkvæði og ábyrgð sveitarfélaga með þeirri breytingu að ríkið átti að leggja í heild allt að tvo milljarða króna í styrktarsjóð sem sveitarfélög skyldu keppa um árlega að fá úthlutað úr gegn mótframlagi.

Hvað þýddi þetta í raun? Jú, að þau sveitarfélög sem ekki höfðu ráðrúm í sínum fjárhagsáætlunum til að bjóðast til að greiða mun hærri hluta per tengingu á heimili en 250.000 kr., myndu ekki eiga möguleika á úthlutun í samkeppninni um fjármagn hins opinbera. Þannig sendu allir sveitarstjórar Austurlands frá sér sameiginlega ályktun í febrúar 2016 þar sem fram komu m.a. hörð mótmæli við þeirri aðferðafræði að „etja sveitarfélögum saman í einhvers konar uppboð um mjög takmarkaða fjármuni og í raun velta ábyrgð og kostnaði við ljósleiðaravæðingu Íslands yfir á sveitarfélögin. Minni sveitarfélög, sem enga burði hafa til þátttöku í slíku kapphlaupi, munu sitja eftir og bilið á þjónustustigi í fjarskiptum meðal íbúa þessa lands mun vaxa enn frekar. Þessi farvegur gengur þvert á þær væntingar sem gefnar voru þegar starfshópurinn skilaði sinni skýrslu á vordögum 2015 og forsætisráðherra kynnti.“

En áfram var haldið og 20. apríl 2016 undirritaði Fjarskiptasjóður samninga við „hlutskörpustu sveitarfélögin“, fjórtán talsins. Alls átti að nást að tengja um þúsund heimili og fyrirtæki á árinu 2016. Af hálfu hins opinbera var lýst yfir gríðarlega mikilli ánægju með ferlið en sveitarfélögin voru ekki allskostar sátt. Í júní 2016 lýstu landshlutasamtök af öllu landinu því einróma áliti sínu að við framtíðarúthlutanir yrði að vera svigrúm fyrir sértækar aðgerðir þar sem horft væri til tenginga þeirra svæða þar sem erfiðar aðstæður og/eða lágar tekjur sveitarfélaganna koma í veg fyrir þátttöku í uppboði á samkeppnisforsendum. Þessum sjónarmiðum höfðu landshlutasamtökin komið á framfæri við Fjarskiptasjóð, starfshóp um alþjónustu í fjarskiptum og útbreiðslu háhraða nettenginga á Íslandi og innanríkisráðuneytið.

Hvað er ég tilbúin(n) til að greiða fyrir ljósleiðaratengingu?

Engu að síður var aftur lagt af stað með sömu aðferðarfræði við úthlutanir ársins 2017. Í einhverjum tilfellum ákváðu sveitarfélög sem reynt höfðu þátttöku í kapphlaupinu um fjármagnið árið áður að taka ekki þátt að nýju enda virtust möguleikar þeirra jafn litlir og áður. Önnur héldu sig við fjárhagsramma sína og sóttu einvörðungu um styrk þar sem samlegðaráhrif voru með framkvæmdum (s.s. að leggja ljósleiðara um leið og rafstrengi), þ.e. reistu sér ekki hurðarás um öxl. Í febrúar 2017, eftir að umsóknarfrestur til Fjarskiptasjóðs var liðinn, bárust þau ánægjulegu tíðindi að nýr ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála hefði ákveðið að veita 100 milljónum króna úr fjárveitingu byggðaáætlunar til að styrkja sérstaklega uppbyggingu ljósleiðarakerfis í strjálbýlum sveitarfélögum, ekki síst í ljósi þess að fjárhagur sveitarfélaga er mismunandi. Með þessu framlagi átti að styrkja samkeppnisstöðu tiltekinna sveitarfélaga gagnvart umsóknum í samkeppnispott Fjarskiptasjóðs. Því miður fyrir þau sveitarfélög sem setið höfðu hjá og ekki sent inn umsóknir til Fjarskiptasjóðs, þá komu þau ekki til greina fyrir þessa aukafjármuni.

28. febrúar sl. var svo gengið frá samningum við 24 sveitarfélög um styrki vegna ljósleiðaravæðingar þeirra. Sveitarfélögin 24 fá samtals 450 milljónir króna í styrki til að tengja um 1400 nýja staði, allt frá um 1,5 milljónum króna upp í nærri 63 milljónir. Auk styrkja frá Fjarskiptasjóði, þá leggja íbúar og sveitarfélög að lágmarki 350.000 kr. af mörkum vegna hverrar tengingar en í mörgum tilfellum er þörf á töluvert hærra framlagi heimamanna. Í þeim tilfellum að sveitarfélag ætlar ekki að eiga og reka eigið kerfi greiða fjarskiptafyrirtæki fyrir það að eignast slík kerfi eða reka fyrir hönd sveitarfélagsins.

Það er ekki óeðlilegt að íbúar þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa verið reiðubúin að henda sér út í slaginn um takmarkaða fjármuni ríkisins til þessa mikilvæga verkefnis séu ekki allskostar sáttir og að þeim finnist forsvarsmenn sveitarfélaganna ekki hafa staðið sig í að ljósleiðaravæða sveitarfélögin. Það er þó vert að halda því til haga að til að tryggja sér styrki úr Fjarskiptasjóði hefðu þessi sömu sveitarfélög þurft að vera reiðubúin að standa straum af greiðslum á háum stofnframlögum, stofnframlögum sem á endanum verða greiddar, með einum eða öðrum hætti, af íbúum sjálfum.

Og ef til vill þurfa landshlutasamtökin og forsvarsmenn allra sveitarfélaga að standa sig enn betur í að minna hið opinbera á að góð fjarskipti eru grunnþjónusta og þar af leiðandi á forræði ríkisins, en ekki sveitarfélaga, minna á það að þau fyrirheit sem boðuð voru í skýrslu starfshóps árið 2015 gerðu ráð fyrir að Ísland allt yrði ljósleiðaravætt fyrir árið 2020 og að kostnaður ríkisins við það verkefni yrði 3-4 milljarðar króna. Miðað við 450-550 milljóna króna framlag á ári, er ljóst að það markmið mun ekki nást fyrr en mun síðar. Nema náttúrulega að kostnaðinum við verkefnið verði velt yfir á sveitarfélögin og íbúa þess.

Sigrún Blöndal,
formaður stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi

Björg Björnsdóttir
verkefnisstjóri sveitarstjórnarmála hjá Austurbrú

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar