Að láta gott af sér leiða

Leiðari Austurgluggans 20. nóvember 2009:

 

Á þessu erfiðleikaskeiði í íslenskri sögu virðist fólk þjappa sér saman og láta gott af sér leiða sem aldrei fyrr. Það er bæði gott og hollt fyrir íslenska þjóð. Gildi eru endurmetin og líkt og varð niðurstaða Þjóðfundarins í Laugardalshöll fyrir viku eru það heiðarleiki, jafnrétti, virðing og réttlæti sem skipta sköpum ásamt ýmsu fleiru jákvæðu.

austurglugginn.jpg

Að láta gott af sér leiða er heilsusamlegt og eykur vellíðan og samkennd. Í dag afhenda ýmsir aðilar á Austurlandi, sveitarfélag, samtök, fyrirtæki og einstaklingar, Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað gjafir fyrir á þriðja tug milljóna króna. Frést hefur af því að Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Seyðisfirði ætli að afhenda formlega ýmsar gjafir í byrjun desember. Þetta er alveg magnað og dagljóst að ýmislegt sem þarna er gefið fengist trauðla keypt af naumum fjárhag stofnananna sem um ræðir, þó brýnt sé. Þeim er stöðugt sniðinn þrengri stakkur og því æ mikilvægara að við, notendurnir, leggjum þeim lið eftir megni.

  

Fyrir nokkru skrifaði ég á þessum vettvangi um ýmsar leiðir sem færar væru þeim einstaklingum sem þyrftu aðstoðar við í erfiðu árferði. Ég vil hvetja hjálparsamtök og –stofnanir til að kynna þau úrræði sem í boði eru á Austurlandi vel og vandlega, aftur og aftur, svo fólk sem á bágt hverfi ekki inn í skugga skammdegismyrkursins og eigi þaðan jafnvel ekki afturkvæmt. Ég vil hvetja okkur öll til að hafa auga með þeim sem við vitum að eiga undir högg að sækja og rétta þeim hjálparhönd með einhverjum hætti. Sjálfsmorð eru óhugnanlega tíð um þessar mundir þó aldrei virðist mega ræða um slíkt upphátt. Við heyrum ítrekað af slíkum ótímabærum dauðsföllum og oft er sem öngstræti hafi lokað fólk af og það ekki séð leið út. En það er næstum alltaf leið út og ljóstýra í sortanum. Við getum í það minnsta gert heiðarlega tilraun til að vera sú ljóstýra ef við kærum okkur um. Verst er ef við leyfum okkur að líta undan. Það er okkur ekki sæmandi.  Veittur kærleikur og veglyndi kemur margfalt til baka.

 

Samfélagið erum við. Hvorki meira, né minna.

 Steinunn Ásmundsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.