108 blaklið mæta til leiks 30. apríl

34. Öldungamót Blaksambands Íslands verður haldið á  Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði dagana 30. apríl – 2. maí 2009.  Mótið hefur einungis verið haldið tvívegis á Austurlandi og þá í bæði skiptin á Neskaupstað árið 1999 og 2003. 108 lið mæta til leiks og eykst íbúafjöldi svæðisins um allt að þúsund manns þessa helgi.

oldungamot_banner.jpg

 

 

Til þess að geta sótt um að halda öldungamót þurfa íþróttafélögin að uppfylla ákveðin skilyrði og eitt af þeim er að stuðla að uppbyggingu blakíþróttarinnar hjá börnum og unglingum.  Á Egilsstöðum hófst krakkablak haustið 2006 og á Seyðisfirði haustið 2007.

Margrét Vera Knútsdóttir var útnefnd sem „Öldungur“  mótsins en hann ber ábyrgð á skipulagningu mótsins.

 

Margrét Vera segir mótið hafa vaxið og dafnað svo um munar frá því að fyrsta mótið var haldið árið 1976 í Reykjavík en þá voru 11 karlalið skráð til keppni.  Það var ekki fyrr en 1980 á Siglufirði sem konurnar bættust í hópinn og voru 4 lið skráð til keppni í kvennaflokki en 6 í karlaflokki. 

Síðastliðin 10 ár hefur fjöldi keppnisliða verið á bilinu 80 - 95 en árið 2007 sprakk 100 liða múrinn og mættu 102 lið til keppni í Garðabæinn, 35 karlalið og 62 kvennalið.

 

Í ár er metþátttaka og er þessi fjöldi liða langt umfram væntingar mótshaldara.  108 lið eru skráð til leiks, 70 kvennalið og 38 karlalið.  Liðin koma frá 48 félögum sem eru af öllu landinu.  Það verður því leikið á 8 völlum, þremur á Seyðisfirð, þremur  á Egilsstöðum, einum í Fellabæ og Brúarási.

Því má reikna með að fjöldi keppenda og annarra gesta á mótinu verði um eða yfir 1000 manns.

Mótið hefst á fimmtudeginum 30. apríl kl. 8:00 og áætlað að leikjum ljúki bæði á fimmtudeginum og föstudeginum kl. 21:00.  Úrslitaleikir í efstu deild karla og kvenna fara fram í íþróttahúsinu á Egilsstöðum kl. 14:00 laugardaginn 2. maí.

 

Heilmikil afþreying verður í boði á kvöldin bæði á Seyðisfirði og Egilsstöðum.  Karókíkeppni verður í Skjálfta á fimmtudagskvöldinu og í Herðubreið á föstudagskvöldinu, sigurvegarar úr þeim keppnum taka síðan lagið á lokahófinu sem haldið verður á Seyðisfirði á laugardagskvöldinu.  Mikil stemming er fyrir hófinu á meðal blakara og eru 640 miðar þegar seldir.   Veislustjóri verður: Ásgrímur Ingi Arngrímsson og Hljómsveitin Austurlandið ásamt Magna Ásgeirssyni  munu sjá til þess að dansað verði fram á rauða nótt.

 

Trúbadorakvöld verða einnig í „efra og neðra“  þannig að nóg verður við að vera auk þess sem verslunar og þjónustufyrirtæki í bænum lengja opnanir fyrirtækja sinna.

Þema Öldungamótsins í ár er 80´tímabilið og má því búast við „guggum“ með glimmer og „lúðum“ í lakkskóm eins og segir í texta mótslagsins sem Helena  Birgisdóttir samdi við lagið Nine to five með Dolly Parton. 

 

Veglegri mótaskrá verður dreift í öll hús á Egilsstöðum og Seyðisfirði og gefst því bæjarbúum tækifæri á að fylgjast enn betur með mótinu og mæta til að hvetja sitt fólk..

 

Heimasíð mótsins er  www.oldungamot.net þar má  nálgast allar upplýsingar hvað varðar  afþreyingu og þjónustu hverskonar sem í boði er á svæðinu.

Þá notum við einnig vefinn  www.blak.is  en þar eru allar upplýsingar um leik mótsins.  Úrslit  allra leikja  mun birtast þar jafnóðum og leikjum lýkur.

 

Margrét Vera segir að án aðstoðar sveitarfélaganna beggja,  Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar væri ógerningur að halda mót af þessari stærðargráðu og kunni blakarar þeim bestu þakkir fyrir jákvæðni og frábæran stuðning í mótsundirbúningnum, sem og öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa stutt við framkvæmd mótsins.

 

,,Við hlökkum mikið til mótsins og vonum að bæjarbúar nýti sér einnig  þá skemmtun sem í boði  verður mótsdagana“ segir Margrét Vera.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.