Háir leigubílareikningar Bæjarútgerðarinnar vöktu athygli

Yfirmenn á togurum Bæjarútgerðarinnar í Neskaupstað þurftu að beita ýmsum aðferðum til að manna skip sín í lok sjötta áratugarins. Þeir sem voru ráðnir fengu ekki alltaf langan fyrirvara til að gera sig ferðbúna.

Bæjarútgerðin átti í nokkrum vanda á sjötta áratugnum, þrátt fyrir að hafa á að skipa togaranum Gerpi sem var smíðaður í Þýskalandi árið 1957 og var talið eitt fullkomnasta fiskiskip Evrópu.

Síldarævintýrið var hafið og sóttu sjómenn fremur þangað en á togarana sem varð til þess að erfitt varð að manna Gerpi. Meðal annars voru sjómenn sóttir til Færeyja og lagði það meðal annars grunninn að góðum tengslum Neskaupstaðar við eyjarnar.

En viljinn til að ná til sín skerf af síldinni varð til þess að Norðfirðingar stofnuðu sitt eigið fyrirtæki, Síldarvinnsluna. Í gær var haldið upp á að sextíu ár voru liðin frá því að fyrsti síldarfarmurinn kom í verksmiðju fyrirtækisins. Af því tilefni rifjaði Smári Geirsson, sagnfræðingur, upp aðdragandann að stofnun fyrirtækisins.

Smári hefur ritað fjölda bóka um sögu Norðfjarðar og viðað að sér fjölda gagna. Hann sagðist nýverið hafa verið að skoða bókhald gömlu Bæjarútgerðarinnar og tekið eftir ótrúlega miklu magni reikninga frá leigubílstjórum í Reykjavík.

„Þeir voru tilkomnir vegna þess að yfirmenn skipsins fóru á milli öldurhúsa til að leita að mannskap til að fara út með skipinu. Þar var oft um að ræða ógæfumenn sem gátu verið mjög góðir sjómenn.

Það lá við að menn væru sjanghæaðir um borð í fullkomnasta skip Evrópu,“ sagði Smári.

Svo fór að Gerpir var seldur frá Norðfirði árið 1960. Saga Síldarvinnslunnar hefur verið sveiflukennd en undanfarinn áratugur hefur verið sá besti í sögu fyrirtækisins sem er eitt það stærsta í landinu í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.