Fánabarátta í Fjarðabyggð

„Þessi kosningabarátta er farin að taka á sig nýja mynd sem ég hef ekki séð áður í mínu kosningastússi,“ sagði Einar Már Sigurðsson, fyrrverandi þingmaður og frambjóðandi Fjarðalistans í framsöguræðu sinni á framboðsfundi á Breiðdalsvík í gærkvöldi.

„Frumlegasta útspilið var síðustu nótt þegar ungir menn á vegum Sjálfstæðisflokksins laumuðust heim til mín og settu upp fána, beint úr Valhöll, á nýju flaggstöngina sem synir mínir gáfu mér,“ sagði Einar Már í framboðsræðu sinni í gærkvöldi.

Einar Már sagði að fáninn hefði ekki haft mest áhrif á sín heldur lýsti áhyggjum sínum af áhrifum á nágranna sína. „Smári Geirsson var heppinn að komast í gegnum daginn eftir að það fyrsta sem hann sá þennan morguninn var þessi ófögnuður.“

Einar Már mætti með fánann í ræðupúltið og að svo búnu henti hann fánanum til frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins sem sátu saman á borði úti í sal.

Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagðist síðar hafa hringt í son Einars þegar hann heyrði af uppátækinu. Sá sagðist vita af fánanum, hann ætlaði bara að bíða eftir að sjá svipinn á föður sínum þegar hann kæmi heim.

Jens Garðar rifjaði við sama tækifæri upp að hann hefði verið mikill kommúnisti á sínum yngri árum og safnað öllu sem viðkom Sovétríkjunum, þar á meðal rauðum fána sem sem hann hefði lánaði Einari Má. Ekki var farið nánar út í skilin á þeim fána á fundinum.

bdalsvik frambodsfundur 20180514 0023 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar