Eigandi Íslands!

Hermt er að ansi mörgum Austfirðingum hafi orðið starsýnt á andlit Jónasar Guðmundssonar á forsíðu Stundarinnar í dag undir fyrirsögninni „Eigendur Íslands – hagnast um milljarða af aðgengi að náttúruperlum.“


Umfjöllunin snýst reyndar frekar um hverjir eigi náttúruperlur Íslands, enda er það fyrirsögnin þegar komið er inn í blaðið þar sem fjallað er um hugsanlega gjaldtöku á ferðamannastöðum.

Síðan er fjallað sérstaklega um nokkra staði, hverjir eigi þá, hvernig hafi verið staðið að uppbyggingu, úthlutanir úr framkvæmdasjóði ferðamanna og reynt að rýna í hvaða hvatir liggja að baki eigninni og framtíðaráformum.

Á miðopnunni blasa við tveir austfirskir staðir: Hengifoss og Stórurð, sem sagt er í eigu landeigenda á Hrafnabjörgum. „Stórurð, sem er á náttúruminjaskrá, tilheyrir jörðinni Hrafnabjörgum í Fljótsdalshéraði, enda er hún stundum kölluð Hrafnabjargarurð.“

Sem er allt satt og rétt. Svo er haldið áfram:

„Hrafnabjörg komst í fréttir árið 2013 þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti lögheimili sitt að bænum Hrafnabjörgum III. Jörðin er hins vegar í eigu Jónasar Guðmundssonar, bónda að Hrafnabjörgum I. Hrafnabjörg II er síðan í eigu Rúnars Guðmundssonar, ábúenda á svæðinu IV er í eigu Ingjalds og Rögnvalds Ragnarssona.“

Sem er líka satt og rétt. Og þetta væri allt rétt ef þetta væri ekki tengt saman.

Eins og allir í nágrenninu vita eru Hrafnabjörg Jónasar og félaga í Jökulsárhlíð, norðan bæði Lagarfljóts og Jökulsár á Dal, um 20 mínútur frá Egilsstöðum í Norðausturátt, á leiðinni til Vopnafjarðar – ef það skyldi hjálpa einhverjum.

Eins og allir vita er Stórurð sjálf milli Héraðs og Borgarfjarðar, alveg hinu megin við stóru árnar tvær og aksturinn að upphafsstaðnum tekur um þrjú kortér. Áætla að á milli séu tæpir 30 km - í beinni loftlínu.

Þar er nefnilega líka jörð sem nefnist Hrafnabjörg og tilheyrir Hjaltastaðaþinghá, öðrum gömlum hreppi sem nú er hluti af Fljótsdalshéraði. Landið er í eigu allt annarra aðila og þar er bara tvö sumarhús – sem hvorki Jónas né forsætisráðherrann fyrrverandi hafa nokkurn tíman haft heimilisfesti í.


Það er meira að segja svo að jörðin kemur upp efst þegar leitað er að Hrafnabjörgum á fmr.is, tekið er fram að hún sé eyðijörð og hægt er að skoða mynd til að sjá hvar hún er staðsett.


En það verður að reyna að hafa gaman af þessu merkilegra klúðri sem einhvern vegin skilaði Jónasi 15 mínútum af frægð. Þannig sendi einn netverji Jónasi hamingjuóskir með að hafa eignast Stórurð í dag. Eflaust leggur hann næst undir sig fleiri perlur á lista Stundarinnar, svo sem Gullfoss, Geysi og Jökulsárlón – enda er síðastnefnda landið til sölu.

Eða Jónas gæti lagt undir sig aðrar Hrafnabjargir og það sem þeim tilheyrir en þær eru í Hrunamannahreppi, Hvalfjarðarsveit, Húnavatnshrepp, Svalbarðsstrandarhreppi, Súðavíkurhreppi, Ísafjarðarbæ, Akureyri og Borgarbyggð. Þá mætti fyrst kalla hann „eiganda Íslands!“

Og síðan er spurning hvernig Hrafnabjargareigendur, hverjir svo sem það eru, hafa hagnast á perlunum. Aðgangur um landið hefur verið frjáls og frír – og verður það vonandi áfram – og uppbygging í höndum sveitarfélaganna Borgarfjarðarhrepps og Fljótsdalshéraðs.

En stærsta spurning hlýtur að vera hvers vegna Jónas var valinn fram yfir hinn landsfræga torfæruökumann og nágranna sinn Rögnvald?!?

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.