„Yndislegt og ekta íslenskt ferðaveður“

Átta manna hópur frá Fáskrúðsfirði hjólaði í ágúst þvert Ísland, frá Rifstanga yfir hálendið að Kötlutanga. Hjólreiðafólkið fékk alvöru íslenskar aðstæður á leiðinni.

Hugmyndin kviknaði fyrir rúmu ári og þótt heldur kvarnaðist úr hópnum yfir tímann fóru þrír hjólreiðagarpar þau Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, Bjarni Bjarnason og Óskar Þór Guðmundsson af stað þann 2. ágúst síðastliðinn.

Tveir ungir synir Arnfríðar og Bjarna; þeir Jason Eide og Emil Eide tóku sín hjól einnig með í túrinn. Hjólagörpunum til fulltingis alla dagana voru foreldrar Arnfríðar, Jóna Björg Jónsdóttir og Hafþór Eide Hansson og eiginkona Óskars, Málfríður Hafdís Ægisdóttir.

Óskar sýktist heiftarlega af hjólabakteríunni árið 2016, en hann eins og frægt er orðið hjólaði fyrir fáum árum yfir landið til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni. Hin í hópnum höfðu fram að þessu mest farið í styttri hjólatúra um Austurland.

Fyrir ferðalög á Íslandi er hægt að skipuleggja allt annað en veðrið. Hellirigning og sterkur mótvindur tók á móti hjólagörpunum strax frá fyrsta andartaki á Rifstanga og heilt yfir á þessu tólf daga ferðalagi hópsins reyndist veðrið nánast eins slæmt og hugsast gat á þessum tíma árs. Þurfti hópurinn meðal annars að dvelja í tvo sólarhringa í sæluhúsum Ferðafélags Íslands í Nýjadal á Sprengisandsleið sökum veðurs, þvert á áætlanir.

Óskar Þór lýsir veðrinu í ferðinni, á engan hátt kaldhæðnislega, þegar hann talar um „yndislegt og ektra íslenskt ferðaveður,“ en bætir svo við: „Almennt má segja að rigning og jafnvel hellirigning sé ekkert stórvandamál í hjólaferðum utan alfaraleiða. Það er hægt að klæða af sér. Vandamálið er þegar rignir og mótvindur er sterkur í langan tíma í senn. Þá vill gjarnan draga þrótt og vilja úr, og þá ekki síst þegar hjólað er um gljúpan jarðveg eða sanda eins og nóg er af á hálendinu.“

Síðustu dagar ferðarinnar reyndust þeir allra bestu og þá sýndi Ísland allar sínar bestu hliðar að sögn Arnfríðar. „Þá daga var þetta eins frábært og hægt var. Logn eða hægur vindur, sólskin og dásamleg náttúra hvert sem litið var. Ógleymanlegir dagar og verri dagarnir til að byrja með gleymdust á augabragði.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.