Yfirlækni sagt upp störfum

Í gær var Hannesi Sigmarssyni, yfirlækni Heilsugæslu Fjarðabyggðar sagt upp með bréfi frá framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Einar Rafn Haraldsson, forstjóri HSA, staðfestir að lækninum hafi verið sagt upp frá og með 1. janúar n.k. og verði hann tekinn af launaskrá 30. apríl. Ekki er óskað eftir vinnuframlagi læknisins á uppsagnarfrestinum.

hsa.jpg

Hannesi mun vera sagt upp á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 1996, 44. gr.:

Skylt er að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Annars er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi, þar á meðal ef uppsögn stafar af öðrum ástæðum, svo sem þeirri að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar.

 

21. gr. Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu. Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.

  

Flaggað hefur verið við hálfa stöng við hús á Eskifirði í dag, í kjölfar þess að fréttavefurinn dv.is birti samtal við Hannes, þar sem greint er frá uppsögninni. Hannes segir þar að engar ástæður hafi verið gefnar fyrir henni. Hann hefur undanfarið starfað við lækningar á Höfn. Íbúar Fjarðabyggðar hafa margir sýnt lækninum stuðning og stofnuð voru Hollvinasamtök Heilsugæslu Fjarðabyggðar fyrr á árinu.

  

12. febrúar í ár vék HSA Hannesi tímabundið frá störfum vegna gruns um að hann hefði misfarið með fé stofnunarinnar með rangri reikningsfærslu. Málið var kært til lögreglu, sem lét það niður falla og embætti ríkissaksóknara vísaði því í kjölfarið frá. Síðan hefur það velkst í kerfinu og ýmsir angar þess verið til umfjöllunar hjá Ríkisendurskoðun, heilbrigðisráðuneyti, Landlæknisembætti, Lögreglustjóranum á Eskifirði, Læknafélagi Íslands og víðar.

Eftir að heilbrigðisráðuneytið sendi tvo vinnustaðasálfræðinga til að ræða við heilbrigðisstarfsmenn í Fjarðabyggð um stöðu mála fyrir skemmstu er búið að skila skýrslu þar um til ráðuneytisins en hún hefur ekki verið gerð opinber.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.