Yfirheyrslan: Vildi geta stöðvað tímann

Kristbjörg Mekkín Helgadóttir, nemi við Menntaskólann á Egilsstöðum, mun flytja erindi á árlegum fundi Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin í New York um miðjan júlí. Kristbjörg Mekkín er í yfirheyrslu vikunnar.



Kristbjörg Mekkín er átján ára og situr í ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjónanna. Hún segir hlutverk þeirra vera að fræða fólk, og þá aðallega jafningja, um heimsmarkmiðin og hvernig eigi að uppfylla þau. Þá eigi þau að vera verkefnastjórninni innan handar með álitamál frá ungmennum.

Hvernig kom seta hannar í ráðinu til? „Ég var í raun bara að renna í gegnum heimasíðu stjórnarráðsins (svona eins og flest ungmenni gera daglega) og rakst á auglýsinguna um að umsóknarferlið væri hafið. Ég hafði kynnt mér heimsmarkmiðin aðeins og fannst þetta frekar spennandi þannig ég ákvað að prufa að sækja um. Ég fékk svar rúmum mánuði síðar. Mér brá svolítið þegar ég komst inn, datt ekki í hug að sveitastelpa út á landi gæti mögulega setið í æðsta ungmennaráði Íslands.“

Um hvað mun erindi hennar á ráðstefnunni snúast? „Eins og er þá erum við bara að undirbúa okkur og kanna hvað ungmennum á Íslandi liggur á hjarta en við viljum kynna fundargestum hvað það er að vera ungmenni á Íslandi. Það ber mikið á alls konar málefnum svo sem menntun, loftslagsmálum, alþjóðasamvinnu og þess háttar, það er úr mörgu að velja. Við tölum mikið beint frá hjartanu og ég held að það sem við skiljum þarna eftir getum við verið rosalega stolt af.“

Hvernig kviknaði áhuginn á málum sem þessum? „Það að búa út í sveit og sjá umhverfið breytast í kringum sig með árunum var held ég kveikjan sem ýtti mér af stað í leitina að betri heim. Þegar ég var yngri tjáði ég mig oftar en ekki um hluti sem mér fannst mega gera betur eða ákvarðanir sem mér fannst hafa verið teknar án ungmenna. Ég eyddi þó nokkrum stundum í grunnskóla að ræða við fyrrum skólastjórnendur um það hvernig mér og öðrum í kringum mig fannst vera hægt að gera betur. Eftir því sem ég varð eldri og áttaði mig betur á hvernig heimurinn virkar byrjaði ég að taka þátt í allskonar ráðum og nefndum, þar fannst mér ég eiga rödd og hef síðan verið að vinna að því að það geti fleiri látið í sér heyra.“

Er ungt fólk í dag nægilega meðvitað? „Mér finnst hafa orðið talsverð vitundarvakning á síðastliðnum árum varðandi umhverfismál og þá sér í lagi loftslagskrísuna, en þó ekki nóg. Við eigum svo langt í land fyrir árið 2030 og það veldur mér talsverðum kvíða að sjá hvernig sumir hunsa þetta alveg. Unga fólkið er í raun ekkert meira meðvitaðri um þetta heldur en þau sem eldri eru, við erum öll á sama stigi en mér finnst eldri kynslóðirnar oftar en ekki leiða þetta hjá sér vegna þess að þetta „er ekki þeirra vandamál“. Við á Íslandi eigum það líka til að sleppa því að hafa áhyggjur af umhverfistengdum málefnum vegna þess hversu smátt landið er, það sé sama hversu illa við umgöngumst landið því það hverfur meira og minna í flæminu. Þessa sýn verður að uppræta. Við getum ekki gert viðsnúning á loftslagsbreytingum nema með hjálp hvors annars. Við eigum aðeins eitt líf og eina jörð og við verðum að passa upp á það til þess að framtíðarkynslóðir, já og við ungmennin sem munum taka við á næstunni þurfum ekki að lifa í stanslausum ótta. Þetta snýst um að tryggja að framtíð mannkynsins - Ekki gera út um möguleika næstu kynslóðar til lifa á jörðinni á mannsæmandi hátt. Hvernig heim viljum við skilja eftir?“

Telur Kristbjörg Mekkín að hennar rödd skili sér og geti haft áhrif? „Svo lengi sem það er einhver tilbúinn að hlusta af alvöru tel ég að rödd okkar geti alltaf haft áhrif. Það er samt svo mikilvægt að halda áfram að nýta rödd sína þó manni finnist maður á tímum vera að kalla inn í tómið. Við vonumst til þess að með þessu erindi okkar munum við koma röddum ungmenna á Íslandi eins vel til skila og við getum, það er svo bara að krossa putta að einhver sér tilbúinn að hlusta.“

Fullt nafn: Kristbjörg Mekkín Helgadóttir.

Aldur: 18 ára.

Nám/Starf: Félagsgreinabraut í ME, Hótel Edda á sumrin.

Maki: Einhleyp.

Hver er þinn helsti kostur? Það segja margir að mínir helstu kostir séu það hversu ákveðin og jákvæð ég er. Glasið er oftar en ekki hálf fullt. Persónulega finnst mér ég samt rosalega fyndin og myndi segja það minn helsta kost.

Hver er þinn helsti ókostur? Þó að það sé vissulega kostur að vera hugsuður og að pæla í hlutum þá á ég það til að pæla alltof mikið í þeim og ofhugsa allt í döðlur, til dæmis þessa New York ferð.

Hvað eru mannréttindi fyrir þér? Mannréttindi fyrir mér eru í raun bara eitthvað sem ætti að vera sjálfsagður hlutur.

Hver er þín fyrsta æskuminning? Ég er með mesta gullfiska minni í heimi og man varla hvað gerðist í gær en ég held að mín fyrsta æskuminning sem kemur í hug eins og er sé þegar ég fór með mömmu og pabba til Englands að heimsækja Þóru frænku og Alex litla frænda (samt bara ári yngri en hann verður alltaf litli frændi). Ég var rúmlega 2-3 ára og hneiklaðist svakalega á því að skærbleiku pollabuxurnar mínar urðu skítugar í súldinni.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Ég myndi allan daginn stöðva tímann, pælið í því hvað væri hægt að afreka mikið með því að stöðva tímann bara? Gæti örugglega leyst öll heimsins vandamál.

Besta bók sem þú hefur lesið? Ég er mikill bókaunnandi og get ómögulega gert upp á milli bóka en sú bók sem á sinn stað nálægast hjarta mínu er Litli Prinsinn. Mæli með því fyrir alla, unga sem aldna að lesa hana.

Mesta undur veraldar? Mesta undur veraldar er hann afi minn, Helgi Hallgrímsson. Held að það þurfi ekkert að útskýra það frekar, hann er það bara.

Draumastaður í heiminum? Mig langar rosalega mikið að ferðast til Egyptalands.

Hvað dreymir þig um að starfa við í framtíðinni? Í raun bara eitthvað sem vinnur að betri heim. Rosalega opin fyrir öllu, bara það sem gerir mig glaða.

Snjallbúnaður? Apple. IPhone, MacBook og AirPods.

Hvað ertu lengi í símanum á dag? Hvað ertu helst að skoða? Skjátíminn minn eru rúmar þrjár klukkustundir. Hef mikið verið að draga úr honum þar sem mér leiðist að hanga í símanum. Merkilegt nokk þá nota ég símann minn mest til þess að tala við vini mína (þó ég svari mjög sjaldan) og skoða fréttir.

Hvernig líta kósífötin þín út? Vinn mikið með boli af pabba og stuttbuxur.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? JÖMM. Ekki spurning.

Syngur þú í sturtu? Ég syng í sturtu já en ég hef ekki gaman af því að vera lengi í sturtu þannig þetta er venjulega one song concert.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Bríet Bjarnhéðinsdóttir.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Húmor og hjartalag.

Eitthvað eitt frekar en annað sem þig langar að afreka í framtíðinni? Það að tala á ráðstefnu hjá Sameinuðu þjóðunum var nú alltaf hátt á lista, en ég væri svo til í að fá að hitta Englandsdrottningu og eiga gott spjall við hana. Fyrir utan það þá langar mig rosalega að afreka það að eiga minn hlut í að gera plánetuna okkar að betri stað og innleiða heimsmarkmiðin á alla mögulega staði.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Planið var að skella sér á Morð-Pubquiz með Unni Borgþórs! Ef þið hafið ekki hlustað á Morðcastið þá mæli ég svo hundrað prósent með því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.