Yfirheyrslan: Ætlar að hlaupa 500 km fyrir jól

Svanhvít Dögg Antonsdóttir Michelsen, oft kölluð Dandý, er í yfirheyrslu vikunnar. Hún stendur  í félagi við Jakob bróður sinn fyrir áskorun þessa dagana sem felst í því að hlaupa eða ganga jafn langt á hverjum degi í 100 daga. 

„Þetta er bara að fara á tvemur jafn fljótum. Hver og einn setur sér markmið fyrirfram, hvort á að fara 3, 4 eða 5 kílómetra á dag. Þannig að þetta er jöfn hreyfing á hverjum degi frá 1. september,“ segir Dandý. Það er því eiginlega orðið of seint að skrá sig en hún segist alveg myndi hugsa um það að bæta nokkrum dögum aftanvið ef einhver vill byrja núna.

Systkinin halda utanum áskorunina í sameiningu en það kom í upphafi til af því að þau skoruðu á hvort annað að gera þetta en ákváðu að bjóða öðrum að taka þátt. „Við systkin fengum sem sagt dellu árið 2011 að taka saman þátt í alls konar „keppnum“ um allan heim og skorum á hvort annað á hverju ári. Ég skoraði núna á hann að hlaupa 500 kílómetra með mér í sitt hvoru lagi fyrir jól. Í framhaldi rúllar af stað áskorun á landsvísu þar sem 88 skráðu sig til leiks, 86 byrjuðu og eru enn að .“

Þegar boltinn var farin að rúlla og fjöldi fólks búið að skrá sig til leiks ákvað Dandý að heyra í fyrirtækjum til að byðja um styrki og búa til gulrót fyrir þáttakendur sem klára. „MVA ákvað að heita á alla þá sem taka þátt og gefa 1000 krónur á hvern sem klárar og mun sú upphæð renna til góðgerðarstarfssemi á Austurlandi. Ég hvet önnur fyrirtæki að bæta í þá ávísun. En svo gefa fjöldamörg fyrirtæki útdráttarverðlaun fyrir þátttakendur.“

 

Yfirheyrslan

Fullt nafn: Svanhvít Dögg Antonsdóttir Michelsen

Aldur: Fjörutíuogsex

Starf: Ritari Skipulags- og byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs

Maki: Hrafnkell Elísson

Börn: Þrjú; Sandra Björk, Erla Viktoría og Elís Alexander. Barnabarn Camilla Eir.

Áhugamál? Hryllingsmyndir, hreyfing og fólk - ég elska skemmtilegt fólk.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Heiðmörk 9, Stöðvarfirði

Hver er þinn helsti kostur? Ég vil alltaf klára verkefnin mín strax.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég vil að allir vilji klára verkefnin sín strax.

Hver er alltaf til í ískápnum hjá þér? Skyr, rjómi, ostur og hnetusmjör.

Ertu nammigrís? Jájá

Kaffi eða te? Kaffi, þó ekki amfetamín kaffi.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið og af hverju?  Elda mat, líklega af því að það tekur tíma sem annars gæti farið í eitthvað sem mér finnst skemmtilegt.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Góður. Flestir dagar þannig. Vakna, borða, vinna og leika smá.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Mamma og pabbi. Alltaf snögg með verkefnin og alltaf hreint og snyrtilegt hjá þeim. Ég vil vera þannig.

Mesta afrek? Missa ekki tökin á geðheilsunni þegar líkaminn sagði stopp í langan tíma og bara yfirleitt þegar “pestin” mín gengur yfir.

Duldir hæfileikar? Engir, ég er góð í flestu og sýni það gjarnan við góð tækifæri.

Besta bíómynd allra tíma? Dallas Buyers Club

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Stundvísi. Vanmetið hvað það er geggjaður kostur.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Ironman Kona. Fallhlífarstökk með mömmu. Ekki finna til í heila viku í einu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.