Völva Agl.is: Vinsældir álversins dvína

volvumynd_web.jpgVölva Agl.is segist „skugga“ vera yfir álveri Alcoa í Reyðarfirði. Hún segir að upp muni komast um kvótasölu til erlendra aðila sem verði talin til landráða. Sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs þarf að takast á við mikla atvinnuuppbyggingu. Agl.is birtir í dag fimmta hluta völvuspárinnar um atvinnumál.

 

Völva Agl.is tekur undir með völvu DV sem spáði því að íbúar á Reyðarfirði muni rísa upp gegn álverinu á árinu vegna mengunarmála.

„Álverið á Reyðarfirði verður ekki lengur eins vinsælt og verið hefur, fólk fussar yfir mengun og heilsutapi. Eitthvað virðist verða að tölvukerfinu sem veldur fleiri bilunum. Það er skuggi yfir stóryðjunni á Reyðarfirði og líklega styttra í það en margir halda að Alcoa loki og fari. Þörf fyrir ál fer minnkandi vegna samdráttar í stríðsrekstri.  Áhugi er á nýjum uppfinningum sem þykja hagstæðari en þessi bræðsluaðferð.

Völvunni virðast tvær verksmiðjur rísa sem ekki munu framleiða ál. Stóriðja á Suðurnesjum verður ekki að veruleika vegna þess að samningar eru byggðir á matador-peningum. Suðurnesjaskuldir og atvinnuleysi verða ekki leyst með stóriðju en liklega kemur þar fyrirtæki sem tengist náttúruvísindum og lækningum.

Þegar skuldamál Reykjanesbæjar verða skoðuð kemur í ljós að bæjarstjórinn hefur selt eða veðsett allar eignir bæjarins fyrir sýndarveruleika. Það verður pólitískt áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ekki það eina.

Ekki fara öll fyrirtæki á hausinn, sum fá styrk til að lifa af. Sum þeirra eru keypt upp af útlendingum sem gera þau að útibúum frá eigin fyrirtækjum. Upp kemst um kvótasölu til útlendinga, það mælist illa fyrir hjá þjóðinni sem telur kvótann sína réttmætu eign en ekki útgerðamanna. Þetta verður talið til landráða og fleira verður sett í þann sama flokk á árinu.  Það skilar hagnaði að fullvinna fiskinn hér heima og hvetja sveitarfelög mjög til þess.

Landbúnaður verður með líku sniði en eitthvað hagstæðari fyrir bændur. Svína- og hænsnabúum mun fjölga, minni einingar verða leyfðar af heilbrigðisástæðum.

Ekki mun verða atvinnuakning, sem mundi skapa verðmæti og vinnu á svæðinu hér eystra, nema sveitarfélögin berjist fyrir því. Fólk spyr, hvað varð um fjárveitingu í sjúkrahús sem átti að standa við alþjóðlegan varaflugvöll á Egilsstöðum, en svör fást ekki.  Ekki fást heldur svör við því af hverju Kaupfélag Héraðsbúa var lagt niður. Sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs þarf að skila því aftur í atvinnumálum sem glatast hefur. Vopnfirðingar hafa haldið vel á sínum málum en á Norðausturlandi hefur eyðingastefna sett mark á hlutina, hrópað er á stóriðju af ráðamönnum.

Sala á vatni virðist vera gríðarlega arðvænleg. Ríkið á að standa að þessari sölu, þetta er eign þjóðarinnar."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.