Völva Agl.is: Slagsmál við þingsetningu

volvumynd_web.jpgVölva Agl.is spáir meiðslum á fólki og skemmdum á þinghúsinu þegar Alþingi kemur saman síðar í dag. Ríkisstjórnin riðar til falls og kröfur eru um utanþingsstjórn. Þjóðin snýst gegn Evrópusamvinnu. Í fjórða hluta völvuspárinnar er fjallað um þjóðmál og stjórnmál.

 

Þjóðin mun hafna því aftur að greiða Icesave, það munu verða læti út af því en Völvan heldur að dómstóll muni taka af skarið um hverjir beri ábyrgð og þurfi að greiða. „Það verður ekki íslenska þjóðin,“ segir Völvan.

Ríkisstjórnin mun riða til falls á næstu dögum ef henni tekst ekki að koma með lausnir sem þjóðinni líkar við. Hennar verður aðeins minnst fyrir svikin kosningaloforð og margir munu vilja pólitíkina burt. Þjóðfélagið verður mjög laskað vegna efnahagsaðgerða stjórnvalda, margir eygja enga von og gefast upp. Kreppa og bág kjör munu vara í þrjú ár, bankarnir munu riða til falls aftur, líklega verður þó tekið til í þeirra kerfi og skipt um stjórnendur. Afhjúpuð verður spilling sem tengist nýju bönkunum.

Auknar kröfur munu verða uppi um utanþingsstjórn sem vinni að bættum efnahag í landinu og komi í veg fyrir fjármálasukk með lagabreytingum og hátekjuskatti. Ópólitíska stjórn sem endurskipileggur kerfið og sníður að þörfum almennings og framleiðslu nauðsynja. Innflutningsbann á öðru en því sem nauðsynlegt er, breytir lögum og eykur eftirlit með bönkum. „Þetta mun koma í ljós á næstu mánuðum og forsetinn verður í sviðsljósinu,“ segir Völvan.

Það verða óeirðir og læti á Austurvelli þegar Alþingi kemur aftur saman í janúar, innrás i Alþingishúsið, meiðsli á fólki og skemmdir á húsi. Fáliðuð lögregla gerir sitt besta.

Vegna sparnaðar í heilbrigðiskerfinu munu margir kveðja þetta líf fyrr en ella og ábyrgð lækna fer þverrandi. Það er mjög dökkt yfir heibrigðismálunum, vantraust, ótti og óöryggi magnast.

Í lok þessa árs mun ríkja meiri skilningur meðal almennings á kjörum okkar og nást meiri jöfnuður og sátt í þjóðfélaginu. Markmið þjóðarinnar er að hæstu laun skuli aldrei vera meira en helmingi hærri en þau lægstu, þar með taldar bætur og ellilaun. Sættir milli þings og þjóðar munu ekki takast öðruvísi.

Öld sannleikans er runnin upp og færir fólk nær raunveruleikanum, penngastyrjöld í stað vopna er í gangi, mútur og landráð. Sífellt fleiri uppljóstranir um ljótan sannleika og skuggaleg leyndarmál verða dregin fram í dagsljósið. Tortryggni mun kenna varúð í viðskiptum. 

Það yrði ekki til góðs ef tækist að aðskilja ríki og kirkju. Best og friðsamlegast er að halda siðareglur og þá trú sem hér hefur verið í 1000 ár og halda áfram að vera Íslendingar, þó öllum sé frjálst að kynna sér og fræðast um aðra trú og siði. Það er menntun.

Það verður mikil reiði í þjóðfélaginu vegna peningaausturs í viðræður við Evropusambandið.  Inn í það samfélag vill þjóðin ekki fara að óbreyttum þeim skylirðum sem sambandið setur.

Á þessum krepputímum væri það gæfa Íslands að standa sjálfstætt og sjá sér og öðrum fyrir mat. Útganga úr EES gefur frelsi í viðskiptum til dæmis við Kína, Indland, Arabaríkin og Rússland. Þjóðin þarf að velja hvort hún vill vera fátæk nýlenda í Evropusambandinu eða sjálfstæð rík þjóð. Frændur okkar Írar reyna að vara okkur við með sinni slæmu reynslu. ,,Það er of seint að iðrast eftir dauðann“ segir máltækið. Völvan sér mikla óvissu í þessum málum öllum, vegna skammsýni misvitra manna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.