Vilja losna við Heilbrigðisstofnun Austurlands úr Fjarðabyggð

Um og yfir 300 manns mættu á fund um málefni Heilsugæslu Fjarðabyggðar, sem haldinn var á Eskifirði í gærkvöld. Til fundarins var boðað af stuðningsmannahópi Hannesar Sigmarssonar yfirlæknis Heilsugæslu Fjarðabyggðar, sem leystur var tímabundið frá störfum vegna rannsóknar á oftöku launa vegna  læknisverka í febrúar sl. Fundurinn samþykkti einróma þrjár ályktanir sem varða heilbrigðismál í sveitarfélaginu, m.a. um að Fjarðabyggð sjái sjálf um rekstur heilbrigðisþjónustu.

esk01vefur.jpg

Íbúafundur, haldinn 4. nóvember, í Kirkju- og menningarmiðstöðinni Fjarðabyggð, samþykkir að skora á bæjarstjórn Fjarðabyggðar að hefja nú þegar viðræður við heilbrigðisyfirvöld um að Fjarðabyggð taki að sér stjórn heilsugæslu í Fjarðabyggð, HSF, með samningum við viðkomandi yfirvöld.

 

Íbúafundur, haldinn 4. nóvember, í Kirkju- og menningarmiðstöðinni Fjarðabyggð, samþykkir að tilnefna fimm aðila til viðræðna við heilbrigðisráðherra um stöðuna í heilsugæslu á svæðinu, sem og um mál yfirlæknis Heilsugæslu Fjarðabyggðar.

 

Íbúafundur, haldinn 4. nóvember, í Kirkju- og menningarmiðstöðinni Fjarðabyggð, samþykkir að beina því til viðkomandi yfirvalda að fram fari rannsókn á því hvort stjórnendur HSA hafi framið stjórnsýslulagabrot á yfirlækni Fjarðabyggðar, Hannesi Sigmarssyni, sem og hvort forstjóri HSA hafi framið mannréttindabrot á yfirlækninum.

  

Ályktanirnar voru samþykktar með dynjandi lófataki fundarmanna.

 

 Yfirlæknirinn saklaus 

Rauði þráðurinn í máli yfirlæknisins var rakinn af Birni Grétari Sveinssyni og las hann upp úr ýmsum skjölum því til staðfestingar að læknirinn væri miklum órétti beittur, m.a. brottvikningarskjali HSA til læknisins frá því í febrúar sl. þegar hann var tímabundið leystur frá störfum. Björn Grétar sagði að fimm sinnum hefðu fengist niðurstöður og allar hnigu í sömu átt; yfirlæknirinn væri saklaus af því að hafa dregið sér fé, líkt og HSA hefði kært hann fyrir og þó eitthvað mætti finna að reikningsfærslu, þ.e. í 26 tilvikum af 1600 tilgreindum samskiptum við sjúklinga, væri það ekki fullnægjandi ástæða til að þjófkenna hann. Aukin heldur væri um túlkun á gjaldtöku að ræða og búið að leiðrétta mistök sem læknaritari, kona Hannesar, hefði gert við reikningsfærslu.

 Tíð læknaskipti illa séð 

Áberandi var á fundinum að íbúar kalla eftir staðfastri læknisþjónustu á svæðinu og harma mjög að missa lækni sem hafi reynst þeim einkar vel og verið bóngóður. Tíð læknaskipti, þar sem hverjum sjúklingi sé naumt skammtaður tími, séu slæm býti. Vel kom fram á fundinum að fólki þykir vænt um lækninn og metur hann mikils fyrir hversu vel hann sinnir því og jafnframt telja margir ásakanir á hendur honum úr lausu lofti gripnar og ,,íbúar Fjarðabyggðar meti fólk meira en vitlausar færslur á reikningum,“ líkt og sagt var á fundinum.

  

Hannes verði almennur læknir á föstu kaupi

 Á fundinum voru auk stuðningsmanna læknisins og þingmannsins Kristjáns Þórs Júlíussonar þau  Matthías Halldórsson, landlæknir og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytis.  

Í máli Matthíasar, sem rakti aðkomu Landlæknisembættis að málinu, kom m.a. fram að hin langdregna rannsókn á máli yfirlæknisins og leyfi hans frá störfum á meðan á rannsókn hefur staðið, sem og langt veikindaleyfi læknis á Fáskrúðsfirði, hafi valdið því að yfirstjórninni (HSA) hafi ekki verið unnt að ráða lækni til langs tíma á svæðið. Þrátt fyrir tíð læknaskipti, sem ekki sé hægt að mæla með en margir sitji uppi með, sé nægilegt framboð á tímum og engar kvartanir hafi borist Landlæknisembættinu um að læknarnir stæðu sig ekki eða aðgengi að þeim væri slæmt. Matthías ítrekaði að ekki sé lengur hægt að skikka lækna til að búa á ákveðnum stað. Fullnægjandi eigi að vera að þeir séu innan héraðs á vöktum sem þeir fá greitt fyrir.

 

Matthías benti á að hugsanlega væri farsælast að leysa mál yfirlæknisins á þann hátt að nýta styrkleika hans sem læknis sem hefur gott samband við fólkið sem hann þjónustar, en girða um leið fyrir að hann geri mistök, með því að fá hann aftur til starfa, en þá sem almennan lækni á föstum launum, en ekki yfirlækni sem þarf að stjórna öðrum og skrifa út reikninga fyrir útköll. ,,Ég myndi vilja Hannes til baka og að góðir hæfileikar hans fengju notið sín í samskiptum við sjúklinga og hann yrði hér sem almennur læknir og annar yrði yfirlæknir,“ sagði Matthías og benti á að slíkt fyrirkomulag væri á störfum Hannesar þar sem hann starfar nú tímabundið á Höfn í Hornafirði.

 

 HSA átti ekki annarra kosta völ 

,,Heilbrigðisstofnun Austurlands, það er að segja framkvæmdastjórnin, átti ekki annarra kosta völ út frá sínum starfsskyldum en að láta rannsaka það sem sneri að svokölluðum grænum seðlum og Hannesi Sigmarssyni yfirlækni,“ sagði Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytis. ,,Svokallaðir grænir seðlar þýða að læknirinn fær borgað fyrir hverja einustu komu utan vinnutíma. Það eru engir á landinu sem notfæra sér jafnmikið þjónustu utan dagvinnutíma og Eskfirðingar. Á hverju ári eru greiddar til lækna á Eskifirði yfir tíu þúsund krónur á hvern íbúa. Þetta er langhæst yfir landið. Kostnaður pr. íbúa á Norð-Austurlandi er yfirleitt í kringum 2000 krónur. Þetta er ástæðan fyrir því að farið er að skoða þessa grænu seðla, sem sagt komur á Eskifirði til lækna utan dagvinnutíma. Það vekur athygli að þetta virðist vera svona fimm sinnum meira á Eskifirði en annars staðar.“ Berglind benti á að dregið hefði mikið úr grænu seðlunum á þessu ári, hverjar sem ástæður þess væru. 14 milljónir hefðu verið greiddar fyrir útköll utan dagvinnutíma í Fjarðabyggð fyrstu tíu mánuði síðasta árs en um 6 milljónir fyrir sama tímabil í ár. Alls staðar á landinu þyrfti að skoða út í hörgul hvar mætti draga úr kostnaði vegna 16% sparnaðar í heilbrigðiskerfinu á tveimur árum. ,,Þetta er alvarlegt mál sem við stöndum frammi fyrir hér. Það hafa verið þreifingar um hvort hægt væri að ná samkomulagi og við verðum að finna einhverja lausn og leitast við að ljúka þessu máli. Það reynir á alla aðila,“ sagði Berglind.

 Úttekt sálfræðinga 

Berglind sagði einnig að brugðist hefði verið við ályktun Fjarðabyggðar um að gerð yrði hlutlaus úttekt á heilbrigðisþjónustu í sveitarfélaginu með því að ráðuneytið hefur nú fengið tvo sálfræðinga, Þórkötlu  Aðalsteinsdóttur og Einar Gylfa Jónsson, til að fara í slíka úttekt í Fjarðabyggð og Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Þá kom fram í máli Berglindar að niðurskurður verður 8% hjá heilbrigðisstofnunum á landsvísu árið 2010 en hjá HSA 4% og með því sé reynt að verja heilsugæsluna í fjórðungnum sem líði þegar fyrir mikinn niðurskurð þessa árs, um 122 milljónir króna.

    

esk01vefur.jpg esk01vefur.jpg   esk01vefur.jpg    esk01vefur.jpg  esk01vefur.jpg   Myndir: SÁ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.