„Við lofum hörkutónleikum um helgina“

„Vonandi tekst okkur að koma einhverjum á óvart,“ segir saxafónleikarinn Garðar Eðvaldsson, sem heldur ásamt tvenna tónleika í fjórðungnum um helgina ásamt hljómsveit sinni, en þeir eru hluti af tónleikaferðalagi sveitarinnar um landið. Garðar er í yfirheyrslu vikunnar.


Garðar hefur verið við tónlistarnám í Basel síðastliðin þrjú ár, og er að ljúka BMus gráðu í saxófónleik í sumar. Tónleikarnir eru hluti af Íslandstúr sveitarinnar þar sem leikin verður splunkuný frumsamin tónlist eftir Garðar, skrifuð hefur verið sérstaklega fyrir hljómsveitina, en það er hluti af lokaverkefi hans við skólann.

Fyrri tónleikarnir verða annað kvöld í Dalshúsi á Eskifirði, heimabæ Garðars. Þeir seinni verða í Frystihúsinu á Stöðvarfirði. Báðir tónleikar hefjast klukkan 21:00.
Garðar segist mjög spenntur fyrir að spila á heimaslóðum. „Maður þekkir svo marga persónulega, sem getur gert hlutina bæði þægilega og erfiða. Fólk hefur aðrar væntingar til manns þegar það þekkir mann og veit að einhverju leyti við hverju má búast. Á móti verður allt spjall á milli laga aðeins vandræðalegra því maður þarf að tala til svo margra, án þess að geta talað við það persónulega. Þegar maður þekkir engan eru væntingarnar oft öðruvísi og fólk veit ekkert við hverju má búast.“



Fullt nafn: Garðar Eðvaldsson.

Aldur: 23 ára.

Starf: Nemandi.

Maki: Asako Berwert.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Í tónlistinni væri það Mark Turner. Ég var svo heppinn að fá að læra hjá honum í Basel, og hann hefur kennt mér heil ósköp, hvað varðar tónlist, og hvað varðar lífið í heild. Í hinu daglega lífi eru það foreldrar mínir.

Ef þú mættir velja eitt lag sem yrði alltaf spilað um leið og þú gengir inn í herbergi allt þitt líf, hvaða lag myndirðu velja? Gonna Fly Now (Rocky þemalagið), það er eitthvað við þetta lag sem kemur öllum í ákveðið hugarástand. Þeir sem hafa farið á Andrésarleikana á skíðum vita hvað ég á við. Svo væri það svo svakalega úr takti við minn persónuleika að það væri eiginlega bara fyndið að hafa það spilandi í bakgrunninum.

Vínill eða geisladiskur? Ætli ég verði ekki að segja geisladiskur. Eins mikið og mig langar að segja vínill, þá á ég hvorki spilara, né tíma í að leita uppi þær plötur sem mig langar í. Mest kaupi ég af tónlist á netinu, og hlusta svo hana í heyrnatólum á leiðinni í skólann.

Hverjum líkist þú mest? Tónlistarlega séð verð ég aftur að segja Mark Turner. Það vill oft verða að maður líkist kennurum sínum, og apar margt upp eftir þeim. Ég lenti alveg í þeirri grifju, og verð að gefa því nokkur ár áður en ég næ að skola það í burtu. Í daglegu lífi hef ég ekki hugmynd.

Í hverju finnst þér þú vera betri en aðrir? Miðað við flesta tel ég mig vera ágætis saxófónleikara.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum, hvað væri það? Ég myndi hafa eitt sameiginlegt tungumál, íslensku auðvitað. Það er svo mikill misskilningur milli menningarheima, sem felast oft í því hvernig tungumál eru uppbyggð. Það myndi spara mikinn kæting og óþarfa leiðindi ef allir gætu bara talað íslensku.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Úff, ég hef nú lítið spáð í það, ætli það væri ekki eftirfarandi:
1. Klára mastersgráðu
2. Búa í Japan í einhvern tíma
3. Gefa út tíu hljómplötur

Duldir hæfileikar? Ég hef einstakan hæfileika að láta tölvubúnað sem ég á ekki, bila þegar ég þarf mest á honum að halda.

Ef þú þyrftir að eyða 100 þúsund kalli á klukkutíma, í hvaða verslun færirðu? Thomann.de, internetbúð með tónlistargræjum. Það er skítlétt að brenna 100 þúsund kall á fimm mínútum í þeirri búð!

Mesta undur veraldar? Ísland, og allt sem þar skeður.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Skíðasvæðið í Oddskkarði, það er ekkert sem toppar útsýnið úr efstu lyftu á sólríkum degi, þegar þú sérð snjó alla leið niður að strönd.

Hvað ættu allir að prófa að minnsta kosti einu sinni í lífinu? Allir ættu að prófa að búa í útlöndum í ár að minnsta kosti. Það er ótrúlegt hvað það opnar fyrir manni heiminn að upplifa mismunandi menningarheim, og sjá hvernig fólk frá öðrum stöðum í heiminum leysir sígild vandamál sem koma upp í daglegu lífi.

Hvaða ósið hefur þér reynst erfiðast að hætta? Það er fjandi erfitt að reyna að eyða minni tíma í tölvunni á hverjum degi.

Ef þú yrðir handtekinn án skýringa, hvað myndu vinir þínir og fjölskylda halda að þú hefðir gert af þér? Ég hefði sennilega gleymt að fara út með ruslið.

Hvernig er tónlistarsmekkurinn þinn? Hann er góður. Mikill djass, en ég hlusta töluvert á popp. Núna nýlega hef ég verið að uppgötva Chris Cheek + Seamus Blake Quintet, og í poppinu hef ég verið að tékka á eldri John Mayer plötum, ásamt Thundercat.

Settir þú þér áramótaheit? Nei ég gerðist ekki svo frægur að gera það.

Helsti munurinn á Íslandi og Sviss? Helsti munurinn milli þessara tveggja landa er fólkið, og vegakerfið. Fyrir íslending virka Svisslendingar mjög stífir og þverir, sérstaklega þegar á að breyta einhverju með stuttum fyrirvara. Ætli það sé ekki helsta ástæðan fyrir því að Sviss er svona pottþétt land í öllu sem það tekur sér fyrir höndum. Allt er útpælt og ígrundað, oft áratug áður en eitthvað loksins er gert í málunum. Sviss er vel sett fjárhagslega, sem kristallast í vegakerfinu hjá þeim. Heilu hraðbrautirnar eru malbikaðar upp á nýtt vegna þess að ein hola fannst í vegkanntinum á 100 kílómetra kafla. Það er hressandi áminning að þeysast um Ísland í þessari viku og heyra varla orðaskil því lætin í grófu klæðningunni er svo mikil. Kannski þurfum við líka bara að loka gluggunum þegar við keyrum.

Hver er þinn helsti kostur? Ég er þolinmóður, oftast nær.

Hver er þinn helsti ókostur? Þolinmæði er ekki alltaf dyggð.

Af hverju saxófónn? Það orsakaðist af því að Sveinbjörn frændi minn spilaði á saxófón á sínum tíma. Þegar ég var yngri apaði ég allt upp eftir honum. Ég var með sömu klippingu og elti hann á röndum þegar ég var á Hornafirði. Það var ekki spurning um að spila á saxófón, þar sem hann spilaði á hann.

Hvað er framundan um helgina? Við lofum hörkutónleikum um helgina! Fyrir utan það reynum við kannski að kíkja í sundlaugina og rölta um bæinn. Strákarnir í hljómsveitinni eru mjög spenntir fyrir því að koma austur. Við hlökkum til að sjá alla á tónleikum í Dahlshúsi á föstudaginn, og Frystihúsinu á laugardaginn.

Hvað er framundan í haust? Öll vötn renna nú til Zürich í Sviss þar sem ég kem mjög líklega til með að leggja nám á rafmagnsverkfræði, sem undanfara hljóðverkfræði síðar. Ég á enn eftir að skila af mér einkunnum, þannig allt er galopið.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.