Verndum mannréttindi kvenna - alþjóðlegur baráttudagur 8. mars

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars stendur Íslandsdeild Amnesty International fyrir undirskriftarsöfnun á heimasíðu samtakanna http://www.amnesty.is/undirskriftir til stuðnings konum og stúlkum í Afganistan. Þrátt fyrir loforð stjórnvalda um betri kjör kvenna er ofbeldi gegn konum og stúlkum í Afganistan enn landlægt og birtingarmyndirnar margar.

afganskar_konur.jpg

Má þar nefna heimilisofbeldi, mannsrán, nauðganir vopnaðra manna, mansal, þvinguð hjónabönd (sífellt yngri stúlkur eru nú þvingaðar í hjónaband) og skiptasamninga þar sem konur eru látnar ganga upp í skuldir eða þær látnar af hendi sem sárabætur vegna deilna. Lítill hópur afganskra kvenna, sem berst fyrir mannréttindum, hefur sótt í sig kjark til að laga bága stöðu kvenna í landinu. Þessum hugrökku baráttukonum er ósjaldan ógnað og þær verða oft fyrir árásum. Ef ná á raunverulegum árangri í að bæta stöðu kvenna í Afganistan verða þarlend stjórnvöld að grípa til tafarlausra aðgerða svo baráttufólk fyrir mannréttindum geti sinnt sínu mikilvæga starfi, án ótta við ofbeldi eða ógn af hvers kyns tagi.

Á heimasíðu deildarinnar er ennfremur unnt að nálgast aðgerðabeiðnir á slóðinni http://www.amnesty.is/hvadthugetur/griptu-til-adgerda/ vegna mannréttindabrota gegn konum í Íran, Venesúela og Nepal.

  (Ljósmynd: Afganskar konur/Reuters) Um baráttudag kvenna, upplýsingar af vef Amnesty  

Allt frá upphafi tuttugustu aldar hefur sérstakur baráttudagur kvenna verið haldinn hátíðlegur víða um heim, en árið 1975 lýstu Sameinuðu þjóðirnar því yfir að 8. mars skyldi vera Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti.

Það var þýska kvenréttindakonan Clara Zektin sem fyrst allra setti fram hugmyndina að slíkum degi á þingi Alþjóðasambands sósíalískra kvenna sem haldið var í Danmörku árið 1910, en þar hittust um 130 konur frá 16 löndum og samþykktu að efna til alþjóðlegs baráttudags kvenna. Dagsetningin var ekki fastsett, en ákveðið að velja sunnudag þar sem það var eini frídagur verkakvenna í þá daga.

Dagsetning baráttudagsins var nokkuð á reiki fyrstu árin en þó ætíð í marsmánuði. Fyrstu árin voru baráttumál kvennadagsins kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna en með tímanum hafa baráttumálin tekið á sig ýmsar myndir, hvort sem er á félagslegum, stjórnmálalegum eða efnahagslegum vettvangi.

Ýmsum áfangasigrum hefur verið náð á liðinni öld í baráttumálum kvenna. Alþjóðlegir samningar sem efla og vernda rétt kvenna hafa litið dagsins ljós og víða verið lögleiddir. Í mörgum löndum eru konur virkir þátttakendur í stjórnmálum og í mennta- og efnahagsmálum hefur þokast áfram í átt að jafnrétti.

Samvinna kvenna um víða veröld hefur styrkst með alþjóðlegum ráðstefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna sem hafa að markmiði að samþætta baráttuna fyrir auknum réttindum kvenna, gegn styrjöldum og ójöfnuði.

Engu að síður er heilmikil vinna enn fyrir höndum. Konur og stúlkur um heim allan þola enn mismunum og ofbeldi sem rænir þær sjálfstæði og kemur í veg fyrir að þær geti notið grundvallarmannréttinda. Konur og stúlkur verða oft verst úti vegna fátæktar, sjúkdóma og umhverfisspjalla og eru ósjaldan skotmark í styrjöldum eða líða fyrir menningar- og trúarhefðir.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður víða, halda konur engu að síður áfram baráttunni fyrir betra lífi. Þær hafa verið leiðandi afl í baráttunni fyrir samfélagsumbótum og auknum mannréttindum til handa öllum. Að sama skapi hafa konur þurft að sæta árásum fyrir það eitt að verja þessi sömu réttindi.

Í tilefni dagsins eru Amnesty-félagar hvattir til að taka þátt í ýmsum aðgerðum til stuðnings og eflingar mannréttindum kvenna í eftirfarandi löndum: Venesúela, Íran, Afganistan og Haití.

Sögulegur bakgrunnur:

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna á rætur sínar að rekja til baráttu verkalýðshreyfinga í Evrópu og Norður-Ameríku við upphaf tuttugustu aldarinnar.

1909: Sérstakur baráttudagur kvenna var fyrst haldinn hátíðlegur í Bandaríkjunum þann 28. febrúar árið 1909. Flokkur sósíalista í Bandaríkjunum valdi daginn til heiðurs verkakonum í fataiðnaði í New York sem boðuðu til verkfalls þennan dag árið 1908 til að mótmæla vinnuaðstæðum.

1910: Á þingi Alþjóðasambands sósíalískra kvenna sem haldið var í Danmörku árið 1910 var samþykkt einróma að baráttudagur kvenna skyldi haldinn á alþjóðavísu til heiðurs alþjóðlegri baráttu fyrir kvenréttindum og til stuðnings baráttunni fyrir almennum kosningarétti kvenna.

1911: Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrst haldinn hátíðlegur meðal sósíalískra kvenna í Danmörku, Þýskalandi, Austurríki og Sviss þann 19. mars árið 1911, þar sem rúmlega ein milljón manna komu saman á fjöldafundum. Konur kröfðust kosningaréttar og réttinda til að gegna opinberum stöðum, til starfsþjálfunar og að bundinn yrði endi á mismunun í starfi.

1913-1914: Alþjóðlegur baráttudagur kvenna ruddi ennfremur braut mótmælum gegn heimstyrjöldinni fyrri. Árið 1913 héldu konur í Rússlandi í fyrsta sinn upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna og Tékkóslóvakía fylgi í kjölfarið. Ári síðar þ.e. árið 1914 söfnuðust konur saman annars staðar í Evrópu til að mótmæla stríðinu og sýna öðrum aðgerðasinnum samstöðu.

1917: Síðasta sunnudag febrúarmánaðar árið 1917 fóru konur í Rússlandi í verkfall en kjörorð þeirra voru: brauð og friður. Fjórum árum síðar afsalaði keisari Rússlands sér völdum og bráðabirgðastjórn landsins veitti konum kosningarétt.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna hefur vaxið að umfangi í tímans rás og sækir styrk sinn til æ breiðari hóps kvenna, bæði í þróunarlöndunum og annars staðar. Á þessum degi hefur hin vaxandi alþjóðlega kvennahreyfing fylkt sér með krafti um baráttuna fyrir aukinni þátttöku kvenna í efnahagslífinu og stjórnmálum og eflt stuðning við kvenréttindi.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er dagur til minnast þeirra áfanga sem náðst hafa í kvennabaráttunni og tækifæri til að krefjast breytinga þar sem þeirra er þörf. Síðast en ekki síst er þetta dagur til að fagna baráttuhug, staðfestu og vilja í verki sem þúsundir kvenna hafa sýnt, löndum sínum og samfélagi til framdráttar. Þessar konur hafa breytt sögunni og lagt grunninn að frekari réttindabaráttu fyrir komandi kynslóðir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.