,,Veit aldrei hvar raðmorðinginn er"

Það á ekki af Kristni Kristmundssyni betur þekktum sem Kiddi í Vídeoflugunni að ganga hvað kattahaldið varðar.  Fyrir um það bil tíu dögum síðan hurfu tveir kettir, læða og ungt afkvæmi hennar að næturþeli. Læðan fannst morguninn eftir á plani um 2 til 300 metrum frá verkstæði Kristins þar sem kettirnir voru haldnir. Læðan var dauð, virðist hafa verið drepin á hryllilegan hátt, en unga kisan hefur ekki sést. 

kiddi_med_kott.jpgForsaga málins er sú að Kristinn tók að sér kettlingafulla læðu fyrir um ári síðan. Læðuna hafði fólk í bænum fundið en gat ekki haft hjá sér, vegna hárofnæmis á heimilinu.  Kristinn fór með læðuna og hlúði að henni á verkstæði sem hann rekur á Egilsstöðum og hefur hún dvalið þar æ síðan. Kettlinginn eignaðist læðan síðan í fyllingu tímans og undu mæðginin þarna saman á verkstæðinu  upp frá því, við gott atlæti Kristins.

,,Henni leið vel hjá mér, svaf í rúmi, fékk vel að borða.  Þetta var greinilega heimilisköttur, var alveg gæf og leyfði öllum að taka sig og halda á sér, gekk sjálf inn og út  af verkstæðinu" segir Kristinn.

,,Það var svo fyrir tíu dögum síðan að kisurnar hurfu að næturlagi, ég var uppi á verkstæði undir miðnætti og kaf kisunum þar, en um morguninn voru þær horfnar.   Frændi minn fann síðan eldri kisuna dauða á plani skammt frá verkstæðinu, í um 200 til 300 metra fjarlægð, þar hafði verið reynt að henda henni í skurð en ekki tekist að henda henni alla leið í skurðinn.  Kisan var alblóðug og ég hélt að hún hefði verið skotin, hún var ekki orðin alveg köld og ég fór strax með hana til dýralæknis sem krufði hana.  Þá kom í ljós að hún hafði ekki verið skotin, hún hafði verið drepin með því að reka eitthvert oddhvasst verkfæri, staf, ör eða rýting í höfuið á henni rétt fyrir aftan eyrað á ská fram og langt inn í heila, ekki þó í gegn.  Dýralæknirinn segir það útilokað að kisan hafi verið skotin og hann leitaði sérstaklega að höglum eða kúlu en fann eingin merki um neitt slíkt" segir Kristinn.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem drepinn er köttur sem Kristinn hefur haldið, árið 2004 var skotinn köttur sem Kristinn átti. Það atvik var kært til lögreglu og það gekk dómur í því máli á sínum tíma, sem vakti nokkra athygli.  Árið 2007 var einnig drepinn köttur sem Kristinn átti, sá var drepinn með eitri. Hann var líka krufinn af dýralækni og sýni send í Keldur, sannað var með óyggjandi hætti að það var eitur sem varð honum að bana. Þeir kettir voru hins vegar báðir drepnir við heimili Kristins. Ekki liggur fyrir um hvaða eitur var að ræða, til þess að komast að því hefði orðið að senda sýni erlendis.  Hins vegar var ljóst að þetta var bráðdrepandi efni og hefði til dæmis getað dregið barn til dauða á um þremur dögum.  Tekið skal fram að ekki hafa fundist nein tengsl milli þessara mála, málinu sem dómurinn gekk í og hinna sem á eftir komu.

,,Það var merkilegt að gömlu brauði hafði verið dreift á planið fyrir utan verkstæðið, eins og lagt hefði verið út æti fyrir kisurnar til að ná þeim.  Dýralæknirinn sagði að kisan hefði greinilega verið drepin og sagði mér að kæra málið strax til lögreglu sem ég og gerði.  Lögreglan hefur hins vegar ekki komist að neinu um málið, né hver var hér að verki. Ég hef nú allar mínar kisur alltaf lokaðar inni og hleypi þem bara út undir bert loft stund og stund undir eftirliti.  Vegna þess að  ég veit aldrei hvar raðmorðinginn er", segir Kristinn Kristmundsson eða Kiddi í Vídeoflugunni eins og hann er jafnan nefndur. kiddi_skinn.jpg

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.