Urgur í fólki vegna lokunar bæjarskrifstofu

Mikill titringur hefur verið í Neskaupstað vegna áforma um að loka bæjarskrifstofu þar og flytja starfsemina yfir á Reyðarfjörð um áramót. 11 starfsmenn vinna á skrifstofunni og hafa nokkrir lýst því yfir að þeir muni hætta fremur en að aka daglega á Reyðarfjörð til vinnu. Í einhverjum af þeim tilvikum er um að ræða starfsmenn sem eiga maka sem vinna á Reyðarfirði en börn í leik- og grunnskóla í Neskaupstað.

fjarabygg.jpg

Rúmlega 200 manns mættu á opinn borgarafund um málið í síðustu viku, þar sem málin voru reyfuð og samþykkt áskorun til bæjarfulltrúa um að endurskoða ákvörðunina. Jafnframt var bæjarstjórn Fjarðabyggðar afhentur undirskriftalisti 530 íbúa sem mótmæla lokun skrifstofunnar. Sama dag barst íbúum dreifibréf frá bæjarstýru um málið, þar sem hún útskýrir hvernig sinna á þjónustu við íbúa, m.a. gegnum þjónustugátt bókasafna og að komið verði til móts við starfsmenn sem illa eiga heimangengt frá Norðfirði uns Norðfjarðargöng verða að veruleika.

Íbúar sem mótmæla áformum um lokun furða sig á því af hverju Fjarðabyggð bjóði ekki upp á starfsstöðvar fyrir starfsfólk bæjarskrifstofa sveitarfélagsins í heimaþéttbýliskjörnum, eins og krafa sé um í nútímasamfélagi og unnt sé að sinna vinnu að miklu leyti með tölvu- og símasamskiptum. Þá er gagnrýnt að sveitarfélagið gangi á skjön við eigin fjölskyldustefnu, sbr. ,,...stuðla skuli að sveigjanleika milli starfs og fjölskyldulífs“ og ,,...skapa beri starfsmönnum aðstæður til að samþætta kröfur til starfsins og fjölskyldunnar.”

Bæjarráð hefur borið fyrir sig að húsnæði bæjarskrifstofunnar hafi verið óviðunandi vegna leka og ekki náðst í leigusala vegna viðgerða og því verið óumflýjanlegt að rifta leigusamningi. Á íbúafundinum var lesið úr bréfi frá eiganda hússins, sem segist bæði hafa boðið samvinnu og viðgerðir vegna húsnæðisins.

 Ekki einhugur 

Eftir samhljóða ákvörðun bæjarráðs um lokunina og íbúafundinn lá í loftinu að klofningur væri kominn upp innan bæjarstjórnarmeirihluta sveitarfélagsins, en Framsókn og Fjarðalisti mynda meirihluta. Framsóknarmenn á Norðfirði væru ekki einhuga í afstöðu til málsins og sömuleiðis talið að fulltrúar Fjarðalistans á Norðfirði vildu leita annarra leiða en beinnar lokunar skrifstofunnar. Á mánudagskvöld funduðu aðal- og varamenn meirihlutans og staðfestu lokunina. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar tekur málið væntanlega til lokaafgreiðslu á boðuðum fundi 15. desember.

 Bókasöfn tilbúin 

Sveitarfélagið segir að íbúar geti framvegis fengið þjónustu gegnum þjónustugáttir í bókasöfnum sveitarfélagsins. Vekur það spurningar um hlutverk safnanna og þjónustustig. Samkvæmt Óskari Þór Þráinssyni, forstöðumanni Bókasafnsins í Neskaupstað, verður opnunartími bókasafnanna óbreyttur og reynt að takmarka sumarlokanir. ,,Opnunartími bókasafns í Neskaupstað er lengri en bæjarskrifstofu og þjónustugáttir opnast nú á Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði þar sem ekki hafa verið bæjarskrifstofur. Á bókasöfnunum starfar einn starfsmaður nema að sami starfsmaður sér um Fáskrúðsfjörð og Stöðvarfjörð. Stöðugildið skiptist jafnt milli skólabókasafns og almenningsbókasafns. Ekki er gert ráð fyrir fjölgun starfsmanna. Gert er ráð fyrir að viðbótarálag verði afskaplega takmarkað þar sem þjónustan er tiltökulega einföld og fellur inn í aðra þjónustu bókasafnanna. Það verður hins vegar gert ráð fyrir afleysingum til þess að leysa af vegna veikinda eða annarrar fjarveru. Starfsmenn munu fá greinargóða kynningu á starfsemi og verkferlum sveitarfélagsins. Bókasöfnin komu að umræðu og þróun hugmyndarinnar um þjónustugáttir á bókasöfnunum. Sú vinna var hafin áður en bæjaryfirvöld tilkynntu um fyrirhugaða lokun á bæjarskrifstofu á Norðfirði,“ segir Óskar Þór.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.