Undursamleg íshöll í iðrum jökuls

Íshellirinn í Eyjabakkajökli er nú fagur sem fyrrum. Þetta sannreyndi Sigurður Aðalsteinsson er hann var á ferð við sporð jökulsins fyrir nokkrum dögum. ,,Íshellirinn er nú aftur í sama formi og hann var þegar hann var upp á sitt fegursta fyrir átta til tuttugu árum,“ segir Sigurður.

shll_vefur.jpg

 

,,Ég kom síðast í þennan helli á útmánðum 2002, á næsta vetri var hann ekki í sama formi og raunar ekki til í fyrri mynd vegna þess að Jökulsá í Fljótsdal sem myndar hellinn með sumarrennsli hafði eitthvað breytt sínum háttum. Síðan fréttist ekki af hellinum fyrr en nú að ég átti leið um svæðið ásamt vinnufélaga mínum Bjarna Jenssyni og ákvað að líta eftir hvort hann væri kominn aftur á sinn stað. Og viti menn, þarna var hann og jafn stórkostlegur og forðum.“

 

Sveinn Sigurbjarnarson bifreiðastjóri uppgötvaði íshellinn í Eyjabakkajökli einhvern tímann á milli 1975 og 1980, þegar hann var með hóp fólks í páskaferð. ,,Við vorum að fara upp með jöklinum og rákumst þá á íshellinn,“ segir Sveinn. ,,Opið var ekki stórt en mikil hvelfing innra og mjög áhrifaríkt að koma þar inn. Aðgengið að hellinum var þá ágætt.“ Sveinn vitjaði íshellisins árlega með páskahópinn sinn í nokkur ár og meira að segja var á tímabili grillað páskalamb í hellinum í ferðunum. Hann segir opið hafa stækkað mikið á þessum tíma. ,,Íshellar breytast mikið og færast úr stað með tímanum og ómögulegt að taka þá sem vísa. Það er eins og með hellana í Brúarjökli í Krepputungunni, stundum eru þar víðir salir og hægt að fara inn um allt, en í annan tíma allt lokað.“

Eyjabakkajökull er austasti skriðjökullinn sem gengur norður úr Vatnajökli. Hinir jöklarnir, tveir talsins, eru Brúarjökull og Dyngjujökull. Eyjabakkajökull er þeirra minnstur og kemur hann úr Djöflaskarði, sem er slakki austan við svokallaða Breiðubungu.

 

 

Ljósmynd/Sigurður Aðalsteinsson)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.