Tveir vinir með tónleika

Píanóleikarinn Jónas Þórir kemur fram á tvennum tónleikum í Egilsstaðakirkju þessa vikuna. Á fyrri tónleikunum, sem verða í kvöld, kemur hann fram ásamt vini sínum Hjörleifi Valssyni, fiðluleikara.

„Við verðum hérna vinirnir tveir á eigin vegum. Hann hefur búið lengi í Noregi, en við höfum spilað reglulega saman og farið eitthvað um landið,“ segir Jónas Þórir.

Efnisskrá kvöldsins verður blönduð að hans sögn, sígaunalög, argentínskir tangóar og lög eftir Sigfús Halldórsson en í ár eru 100 ár eru liðin frá því að maðurinn, sem varð frægastur fyrir að semja um Litlu fluguna, fæddist. „Við köllum hann Fúsa flugu,“ skýtur Jónas Þórir inn í.

Jónas Þórir dvelur eystra þessa vikuna í heimsókn hjá góðum vini sínum og nýtir tímann vel. Á sunnudagskvöld heldur hann líka orgeltónleika í kirkjunni.

„Ég verð með eigin tónsmíðar sem ég bjó til í kringum íslensk þjóðlög. Ég var á leiðinni með dagskrána á Siglufjörð og Hóla í Hjaltadal og vinur minn hér hvatti mig til að koma líka með hana austur.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.