Tuttugasta starfsár Tónlistarstundarinnar hefst í kvöld

„Ég hlakka til kvöldsins enda hefst þá hátíðin á nýjan leik þetta sumarið en hún hefur verið haldin allar götur frá árinu 2002 og meira að segja Covid gat ekki komið í veg fyrir að hún hefði verið haldin síðustu tvö árin,“ segir Torvald Gjelde, organisti, en hann hefur allan þann tíma haft veg og vanda af uppsetningu þessarar rammaustfirsku hátíðar.

Alls sex viðburðir eru á dagskrá hátíðarinnar þetta sumarið en hún hefst formlega í kvöld þegar Torvald sjálfur ætlar að stjórna kór Egilsstaðakirkju en á efnisskránni eru að stærstu leyti austfirsk lög úr ýmsum áttum með skammti af tónsmíðum hins vinsæla gríska skáldi Theodorakis í lokin. Sem endranær er enginn aðgangseyrir á viðburðum á Tónlistarstundinni.

„Það er svo mikil gróska í tónlistarlífi á Austurlandi að það er ekkert ýkja erfitt að leita uppi lög frá þessum landshluta. Margir leita til mín að fyrra bragði með efni, öðrum heyri ég af gegnum vini og félaga og stundum gref ég upp efni með beinni leit.“

Torvald segir skipulagningu hverrar hátíðar hefjast að hausti en alltaf gangi vel að fá tónlistarfólk með í verkefnið og hann gerir sér far um að þar séu eins margir tónlistarmenn frá Austurlandi og framast er unnt.

Tónleikarnir hefjast í kvöld klukkan 20.

Kór Egilsstaðakirkju hélt nýverið tónleika á Hvammstanga þar sem þessi mynd var tekin. Kórinn stígur á stokk í kvöld og þar með hefst Tónlistarstundin 2022. Mynd Torvald Gjelde

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.