Tónlistarstundir á Héraði

Tónleikaröðin Tónlistarstundir á Héraði hefst næstkomandi fimmtudag með einsöngstónleikum Vígþórs Sjafnars Zophoníassonar og Asley Wheat í Egilsstaðakirgju og með flautukonsert Jóns Guðmundssonar í Vallaneskirkju á sunnudaginn.

tonleikar.jpgTónleikarnir sem kallaðir eru Tónlistarstundir á Héraði hafa farið fram á hverju sumri undanfarin níu ár í Egilsstaðakirkju og Vallaneskirkju. Torvald Gjerde organisti í kirkjunum tveim er upphafsmaður þeirra og listrænn stjórnandi.  Tónlistin sem er flutt er vanalega úr klassíska geiranum eða þjóðlagatónlist. Hingað hafa komið feikilega magnaðir Norðmenn og leikið á Harðangursfiðlu og sungið en frá upphafi hefur Torvald lagt áherslu á að þetta sé vettvangur fyrir Austfirðinga og Héraðsbúa að spreyta sig og í ár er meirihluti flytjenda heimafólk, eða fólk sem á rætur sínar að rekja til Austurlands. 

Meðal þeirra sem koma fram í sumar eru baritóninn Herbjörn Þórðarson frá Breiðdalsvík og tenórinn Vígþór Sjafnar Zophoníasson.  Báðir hafa þeir leitað sér framhaldsmenntunar í söng erlendis og starfa þar og verður gaman að heyra hversu þeir hafa forframast. Og nú koma þeir með eiginkonur sínar með sér sem eru sópransöngkonur. Auk þeirra má nefna Þorbjörn Rúnarsson tenórsöngvara og áfangastjóra og leikur Torvald sjálfur undir með honum, Jón Guðmundsson flautukennara og ungt fólk sem er að ljúka tónlistarmenntun sinni hér heima og á leið út í heim.

Tónlistarstundirnar verða sex í ár, á fimmtudögum í Egilsstaðakirkju en á sunnudögum í Vallanesskirkju. Fyrstu tónleikarnir verða 24. júní í Egilsstaðakirkju og verður söngur þar í fyrirrúmi en þá ríður Vígþór Sjafnar á vaðið ásamt eiginkonu sinni Ashley Wheat og Kára Þormar við slaghörpuna. Síðustu tónleikarnir verða svo í Egilsstaðakirkju þann 11. júlí þó sunnudagur sé.


Tónlistarstundir á Héraði 2010, dagskrá:


Egilsstaðakirkja kl 20.00

Fimmtudaginn 24. júní.  Ashley Wheat sópran, frá Bandaríkjunum og eiginmaðurinn Vígþór Sjafnar Zophoníasson tenór, af Fljótsdalshéraði, hún nýbúin með BA-gráðu og hann með meistarapróf í söng og Kári Þormar píanó, organisti í Eskifjarðarkirkju og nýráðinn dómorganisti í Reykjavík   

Fimmtudagur 1. júlí.  Björn Steinar Sólbergsson orgel, organisti í Hallgrímskirkju og skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar  Sólbjörg Björnsdóttir söngur, dóttir hans og söngnemi í Hollandi

Fimmmtudagin 8. júlí.  Herbjörn Þórðarson barítón, frá Breiðdalsvík, og konan hans Lisa Fröberg mezzósópran, frá Sviþjóð, bæði vinna við óperuna í  Gautaborg og Þórarinn Stefánsson píanó, píanóleikari á Akureyri
 
Sunnudagur 11. júlí.  Bjarmi Hreinsson píanó, Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir píanó, Leif Kristján Gjerde píanó, Öystein Magnús Gjerde gítar.   Nemendur á framhaldsstigi á Fljótsdalshéraði, Ingibjörg Ýr lauk framhaldsprófi í vor
 

Vallanesskirkja kl 20.00

Sunnudagur 27. júní.  Jón Guðmundsson flauta, flautukennari í Reykjavík, áður á Fljótsdalshéraði, Matti Saarinen gítar, gítarkennari á Akureyri, áður á Fljótsdalshéraði

Sunnudagur 4. júlí. Þorbjörn Rúnarsson tenór, áfangastjóri við  Menntaskólann á Egilsstöðum og söngvari Torvald Gjerde harmoníum, organisti í kirkjunum tveimur og tónlistarkennari á Fljótsdalshéraði.


Aðgangur er ókeypis og tónlistarstundirnar hefjast alltaf kl 20.00 hvort sem er í Egilsstaðakirkju eða Vallanesskirkju.

Frekari upplýsingar um tónleikana má sjá á plakötum víða í sveitarfélaginu og á heimasíðu Fljótsdalshéraðs.

Tónleikaröðin er styrkt af Menningarráði Austurlands, Menningarnefnd Fljótsdalshéraðs, Tónlistarsjóði Menntamálaráðuneytisins, Egilsstaðakirkju og Vallanesskirkju.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.