Tíðindi þegar kona útskrifast sem húsgagnasmiður

Sigrún Steindórsdóttir, ættuð frá Víðarsstöðum á Héraði, er fyrsti neminn sem lýkur sveinsprófi í húsgagnasmíði undir handleiðslu Brúnás-innréttinga á Egilsstöðum og ein örfárra kvenna í iðninni. Hún lauk sveinsprófi nú nýlega.

sigrn_steindrsdttir_hsgagnasmiur_vefur.jpg

 

Sigrún segist hafa lokið skólanáminu árið 1993 en þar sem lítið hafi verið um að vera á þeim tíma fór hún ekki á samning heldur tókst á við önnur viðfangsefni og þar á meðal útlandaflakk. Hún kom heim fyrir tveimur og hálfu ári og ákvað þá að vinda sér í sveinsnámið hjá Brúnás. Samdist um að hún myndi klára samninginn, þar sem hún var búin með allt nema starfstímann. Hjá Brúnás hefur hún svo verið í  rúm tvö ár. ,,Það er einkar jákvæður hlutur í kreppunni að kona sé að útskrifast í húsgagnaiðn,“ sagði Sveinn Árnason, húsgagnasmíðameistari og fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðfjarðar, þegar kvittað var upp prófskírteinið.

 Náttborð upp á millimetra 

Sveinsstykki Sigrúnar er ákaflega fallegt náttborð úr mahóní og henni voru gefnir fjörtíu tímar til að vinna það frá upphafi til enda. ,,Hún stóð sig með glæsibrag,“ segir Jón Hávarður Jónsson, framkvæmdastjóri Brúnás. ,,Kröfur varðandi málsetningu á sveinsstykkinu voru slíkar að millimeter í skekkju gaf fimm og tveir millimetrar í skekkju var fall. Og Sigrún fékk átta og því nærfellt engar skekkjur í gripnum, sem þykir afar gott.“

,,Það eru mjög fáar konur í þessu og við vorum aðeins tvö sem vorum að taka próf nú á öllu landinu,“ segir Sigrún. ,,Það er sáralítil endurnýjun í greininni. Menn hafa aðallega farið í húsasmíði. Þegar ég hóf nám var til dæmis enginn annar í húsgagnasmíði. Einhverjir hafa þó lært þetta síðan.“

Sigrún er blessunarlega á sig komin og fer fljótlega í barnseignarleyfi. Brúnásmenn segjast endilega vilja fá hana til starfa að því loknu.

Brúnás–innréttingar eru íslensk hönnun og íslensk framleiðsla, framleiddar af trésmíðaverkstæði Miðás hf. á Egilsstöðum.

   Mynd: Sigrún Steindórsdóttir við sveinsstykki sitt, dýrindis náttborð úr mahóní./SÁ

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.