Tíminn nýttur á Nielsen

Undanfarnar vikur hafa reynt á þá sem standa í veitingarekstri. Margir hverjir hafa þó leitast við að bjóða upp á ýmsar nýjungar í þjónustu auk þess að nýta tímann til að betrumbæta aðstöðu og umhverfi staðanna. Meðal þeirra eru eigendur Nielsen á Egilsstöðum.

Þó svo að hér á landi hafi ekki komið tilskipun um að loka skyldi veitinghúsum er ljóst að þau voru misvel í stakk búin til að bregðast við þeim kröfum sem gerðar hafa verið vegna sóttvarna, svo sem um fjarlægð milli borða. Þetta, auk minni aðsóknar vegna aðstæðna, varð til þess ákveðið var að loka veitingastaðnum Nielsen tímabundið í apríl.

„Það var í raun ekkert annað að gera. Við gátum illa tekið við fólki og farið eftir öllum reglum um leið,“ segir Sólveig Edda Bjarnadóttir, en hún og maður hennar, matreiðslumeistarinn Kári Þorsteinsson, opnuðu staðinn í fyrrasumar.

Thailenskur matur sló í gegn

En þótt staðnum væri lokað leituðu þau Kári og Sólveig, rétt eins og margir aðrir veitingahúsaeigendur, leiða til að halda rekstrinum gangandi með nýjungum. Þau ákváðu að bjóða í nokkur skipti upp á thailenskan mat, sem fólk gat sótt eða fengið sendan heim. „Kokkurinn var náttúrulega ekki thailenskari en svo að það var bara Kári. Við höfðum ekki prófað þetta áður, nema hvað ég hafði aðeins gert það heima. En þessu var afskaplega vel tekið. Það var uppselt 5 daga af 6 sem við buðum upp á þetta, bara eins og eldhúsið réð við. Það var mjög ánægjulegt að fá þessar góðu viðtökur.“

Skógarhögg í garðinum


Þau Sólveig og Kári ákváðu líka að nýta tímann sem skapaðist til þess að ráðast í endurbætur á húsnæði staðarins, en hann er að finna í elsta húsi Egilsstaðabæjar. „Það var margt sem var komið á tíma. Við erum búin að vera að fara yfir timburklæðninguna, sumt þarf að skipta um og svo liggur fyrir okkur að mála húsið að utan. Eins þarf að sinna pallinum.“ Pallurinn hefur oft verið mikið aðdráttarafl á sumrin þar sem Íslendingar kunna almennt vel við að geta setið úti og borðað. „Við létum líka saga niður eitt af stóru grenitrjánum hér fyrir framan, meðal annars til þess að fá meiri sól á pallinn.“ Margir Egilsstaðabúar veittu þeirri framkvæmd athygli og stóð ekki öllum á sama enda vanir að hafa þessi tré fyrir augunum. Um var að ræða rúmlega 60 ára gamalt sitkagreni sem mældist um 18 metra hátt og 80 sentimetrar að ummáli við rót. En þrjú samskonar tré standa enn í garðinum og að sögn Sólveigar stendur ekki til að fjarlægja þau.

Kokkurinn í smíðagallanum

Sólveig segir Kára hafa fundið sig vel í útiverkunum, bæði smíðum og garðvinnu, en þau ákváðu einnig að jafna lóðina, bæta við jarðvegi og tyrfa. „Okkur langar að hafa meira grænt gras í kringum okkur. Við fengum gott fólk með okkur í þetta allt saman en Kári er mjög ákafur að hjálpa til. Ég veit ekki hvort hann fæst aftur inn. Hann hefur verið fastur inni í eldhúsi í nokkur ár en er sloppinn út núna og er bara í vinnugallanum og nýtur sín vel.“

Nielsen opnaði dyrnar aftur nýverið, þó aðeins í hádeginu. Sólveig segir þau eiga hóp tryggra viðskiptavina og svo komi alltaf einhverjir nýir inn við og við. „Það er svolítið skemmtilegt hvað það er mikil menning fyrir því hér á Egilsstöðum að fara út að borða í hádeginu. Í dag komu til dæmis yfir 50 manns í hádegismat. En við munum svo opna á kvöldin líka þegar komið er aðeins nær sumrinu.“

Sólveig Edda Bjarnadóttir. Mynd: SBS

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.