Þorrablótið prófsteinn á áhuga á átthagafélögunum

Átthagafélög Austfirðinga á höfuðborgarsvæðinu halda í fyrsta sinn í ár sameiginlegt þorrablót. Nýr formaður Átthagafélags Héraðsbúa segir þróun í heimahögunum ýta undir frekari samvinnu átthagafélaganna.

„Í dag hafa landamærin teygst, með sameiningu sveitarfélaga og bættum samgöngum, þannig að fólk á vini og félaga þvert yfir þau,“ segir Garðar Vilhjálmsson, nýr formaður Átthagafélags Héraðsbúa.

Í nóvember ætlaði fyrri stjórn að slíta félaginu, eftir að hafa í nokkurn tíma reynt að finna nýtt og yngra fólk, til að taka við keflinu. Til þess kom þó ekki þar sem Garðar og fleiri í kringum hann stigu fram á ögurstundu.

„Okkur fannst ómögulegt að leggja félagið niður. Ég held að það hafi verið vegna ákveðinnar íhaldssemi, okkur er hlýtt austur og berum taugar þangað,“ segir hann.

Garðar segist finna fyrir nokkrum áhuga á átthagafélögunum þótt aðstæður þeirra hafi breyst með tímanum. „Áhuginn sem ég finn er ekki endilega bundinn við Fljótsdalshéraðs heldur Austfirðinga. Almennt eru átthagafélögin frekar lítil en það er spurning hvort þau taki skrefið síðar og verði Austfirðingafélag.“

Blótið kjörið fyrir hugmyndir

Fyrsta skrefið verður að halda sameiginlegt þorrablót átthagafélaganna frá Vopnafirði til Djúpavogs. Það verður í Austurbæ 1. febrúar. Veislustjórinn, Gísli Einarsson, kemur úr Borgarfirði vestra, en Ágrímur Ingi Arngrímsson frá Borgarfirði eystra og Ingunn Snædal af Jökuldal flytja minni karla og kvenna.

Héraðsmenn hafa undanfarin ár blótað með Breiðdælingum, Borgfirðingum og Vopnfirðingum þar sem hóparnir hafa skipst á að bera ábyrgð á blótshaldinu. Garðar segir blótið bæði gefa vísbendingu um frekari áhuga á starfi átthagafélaganna. „Við vonumst til að fólk fjölmenni á blót og það gefi átthagafélögunum tóninn. Þátttakan er forsenda þess að líf færist í þau. Þorrablótið er kjörinn vettvangur til að hittast og spjalla, þar geta ýmsar hugmyndir komið fram.“

Vettvangur brottfluttra til að hittast

Garðar segir að þess utan sé ný stjórn Átthagafélags Héraðsmanna að skoða með hvaða hætti starfið verði. „Hér áður fyrr voru gönguferðir og ýmiss konar skipulögð starfsemi. Við munum þreifa hægt og rólega á fleiri málum fyrir brottflutta Héraðsbúa. Við höfum séð fyrir okkur 2-3 viðburði á ári þar sem fólk getur hist og mögulega safnað fyrir góðum málefnum heima í héraði.

Við finnum að fólk er ánægt með að félagið hafi ekki verið lagt niður, næsta spurning er hvort það vilji vera með. Við skoðum með hvaða hætti þetta verður eftir blót.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.