Þarf að umgangast tröllskessur og chili-sósur af varúð

William Óðinn Lefever komst á bragðið af chili-sósum þegar hann bjó í Bandaríkjunum og átti erfitt með að sætta sig við að hafa ekki aðgang að þeim á Íslandi líka. Þess vegna bjó hann til og markaðssetti fyrstu slíku íslensku sósuna sem fékk nafnið Bera.

„Ég kynntist þessum „hot sauce“ chili-sósum þegar ég bjó í Bandaríkjunum. Þar komst maður í aðeins of gott stöff til að flytja aftur heim og fara í núllið.

Hér heima var lítið úrval og þær sem voru til fannst mér ekki nógu góðar. Ég lærði af vinkonum okkar sem við kynntumst úti hvernig ætti að gera svona sósur og byrjaði að leika mér í eldhúsinu heima hjá mér með alls kyns hráefni.

Það má segja að þetta sé nýtt hlutverk fyrir mér, ég byrjaði að gera sósurnar af alvöru fyrir rúmu ári,“ segir William Óðinn í sjónvarpsþættinum Að Austan á N4.

Grunnurinn að sósunni er hvítlaukur, edik og chili en oftast er einhverjum fleiri hráefnum bætt út í til að gefa sósunni meira bragð. Hún er blönduð í öflugri matvinnsluvél en síðan elduð til að tryggja betra geymsluþol, mýkri áferð og ögn sætara bragð.

William Óðinn hefur aðstöðu í eldhúsinu á Karlsstöðum í Berufirði. Hann segir stuðning bæði þaðan og frá Uppbyggingarsjóði Austurlands hafa skipt sköpum fyrir hann til að komast af stað. „Sjóðurinn styrkti mig til að kaupa mér tæki og panta fráefni í fyrstu framleiðsluna.

Ég er ekki frumkvöðull í eðli mínu sem fer af stað og safnar hlutafé eða tekur lán. Að Karlsstöðum fékk ég líka gátt til að koma verkefninu af stað án þess að stofna heimilisbókhaldinu í hættu,“ útskýrir hann.

Sósan hlaut nafnið Bera eftir tröllskessunni sem Berufjörður dregur nafn sitt af. „Tröllskessur eru hættulegar og það þarf að fara varlega að þeim. Chili-sósur geta verið það líka.“Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar