„Þetta var frábær tímasetning“

„Ég er bara ótrúlega þakklátur og bið fyrir kærar þakkir til sjóðsins,“ segir Garðar Eðvaldsson, nemandi í saxafónleik í Basel Sviss, en hann er einn þriggja tónlistarmanna sem hlutu styrk úr minningarsjóði Ágústar Ármanns á dögunum.


Minnigarsjóðurinn um tónlistarmanninn Ágúst Ármann var settur á fót árið 2015 og er þetta því í annað skipti sem úthlutað er úr honum, í bæði skiptin á fæðingardegi hans, þann 23. febrúar.

Sjóðurinn leggur áherslu á að einstaklingar og stofnanir innan Fjarðabyggðar geti sótt um í sjóðinn fyrir verkefni sem stuðla að aukinni tónlistarmenntun.

Ýmis aukagjöld við námslok
Garðar er að ljúka Bachelor-gráðu í dazz-saxafónleik við tónlistarháskólann JazzCampus í Basel í Sviss.

„Ég hef ekki sótt áður um í sjóðinn og bjóst alls ekki við að fá hann þar sem margir sækja um. Þetta skiptir heilmiklu máli fyrir mig og tímasetningin hefði ekki getað verið betri, en styrkurinn mun dekka þau augaútgjöld sem ég þarf að greiða vegna námsloka. Skólagjöldin hér eru frekar há, en við námslok bætast svo við allskonar önnur gjöld sem ég hafði ekki hugmynd um, í tengslum við prófdómara og fleira, en þeir reikningar bara duttu óvænt inn um lúguna um daginn,“ segir Garðar.

Tónleikaröð á Íslandi í sumar
Hvað er framundan hjá þessum unga listamanni? „Akkúrat núna er ég að skipuleggja tónleikatúr með skólabandinu mínu um Ísland eftir útskrift í sumar, en við áætlum að vera í Fjarðabyggð í byrjun júní.

Það er skammtímaplanið, en svo er ég líka farinn að huga að næsta skólaári og er búinn að sækja um mastersnám í Zurich, í upptökutækni- og stjórn, með saxófón sem aukafag. Ég er samt ekki alveg búinn að ákveða þetta, en það er einn möguleiki. Annar er að vera áfram og taka master hér, en sá þriðji að vera bara praktískur og læra eitthvað allt annað, eins og verkfræði, það finnst mörgum það rosagóð hugmynd,“ segir Garðar og hlær.

Jóhanna Seljan og Anya Hrund Shaddock hlutu einnig styrki
Auk Garðars hlutu þær Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir og Anya Hrund Shaddock styrk að þessu sinni.

Jóhanna fær styrk til að sækja námskeið til Danmerkur í Complete Vocal Technique söngtækninni í Kaupmannahöfn, en Anya til að hefja nám við Menntaskólann í Tónlist á Rythmískri tónlistarbraut, sem leggur grunn að háskólanámi á sviði tónlistar, auk einkatíma í söngtækni hjá Vocal Arts Technique.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar