„Þetta litla orð er svo svakalega stórt“

„Ef ég hefði ekki komið aftur og sest að hefði ég líklega aldrei tekist á við þetta uppgjör við Seyðisfjörð, ég hefði bara haldið áfram að koma í heimsókn af og til,“ segir Eva Jónudóttir á Seyðisfirði, en hún segir meðal annars frá móðurmissi sínum í forsíðuviðtali Austurglugga síðustu viku.


Eva er þjónustufulltrúi og vefsíðustjóri hjá Seyðisfjarðarkaupstað, gift og tveggja stúlkna móðir. Hún er kraftmikil kona sem lætur sér fátt á sig fá, enda á hún að baki erfiða reynslu, en móðir hennar varð bráðkvödd þegar Eva var aðeins 12 ára gömul. Þær mæðgur höfðu alla tíð búið einar og valdi Eva því að flytja til móðursystur sinnar og fjölskyldu við andlátið.

Eva segir móðurmissinn að sjálfsögðu hafa mótað allt hennar líf. „Ég er mjög sterkur og sjálfstæður einstaklingur og held að fá áföll gætu bugað mig í dag. Já, ég er alveg töffari en einnig litla viðkvæma sveitastelpan. Ég trúi á sjálfa mig og reyni alltaf eftir bestu getu að vera samkvæm sjálfri mér. Lífsreynsla mín gerði mig að því sem ég er og þó að ég óski engum þess að missa móður sína þá hefur það gert mig að enn betri manneskju, manneskju sem á auðvelt með að sýna samkennd og setja sig í spor annarra. Ég er 100% viss um að ég sé betri móðir fyrir vikið því ég veit hvað góð mamma er dýrmæt.

Síðan ég var 12 ára hef ég ekki getað hugsað mér að segja orðið „mamma“ við neinn – þótt ég hafi auðvitað mátt kalla Huldu það – og það er erfitt en þetta litla orð er svo svakalega stórt. Mamma var aðeins 33 ára þegar hún dó og árið sem ég lifði hana, fyrir þrettán árum, var sjúklega erfitt og ég kveið því í mörg ár. Ég var líka svo hissa þegar ég áttaði mig á hvað hún var ung en í mínum augum var hún auðvitað bara mamma og mamma er alltaf einhver stór, sem getur allt.“

Eva segist einnig hafa fylgst sérstaklega vel með eldri dóttur sinni í fyrra, þegar hún var á sama aldri og hún sjálf var þegar móðir hennar dó. „Það er svo súrrealískt að hugsa um þetta, dóttir mín er bara barn, bara krakki. Í minningunni var ég barn einn daginn en svo breyttist allt lífið á einni nóttu og ég var ekki lengur barn. Stundum þegar ég þarf að taka mömmutalið á stelpurnar mínar og segja þeim til syndanna, þá segja þær: „Þú varst örugglega alveg eins þegar þú varst 12.“ En í rauninni get ég alls ekki samsamað mig þeim, því þegar ég var á þeirra aldri var ég í svo allt öðrum heimi en þær lifa í, það er himinn og haf þarna á milli og varla hægt að útskýra það fyrir þeim.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í 8. tbl Austurgluggans sem kom út í síðustu viku. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar