„Þetta eru ekki sparimyndir sem krakkar mega ekki koma nálægt“

„Það er æðislegt að sjá litina færa líf í fiðurféð,“ segir Ingunn Þráinsdóttir, sem setti upp sýninguna Fjaðrafok á Egilsstaðaflugvelli í gær, en flugvallargestir eru hvattir til þess að lita fimm flennistórar teikningar af fuglum meðan beðið er.


Ingunn er grafískur hönnuður og eigandi vefverslunarinnar Mosa, en í henni notar Ingunn eigin teikningar í vörulínu úr pappír og textíl, innblásna af íslenskri náttúru.

„Ég ætlaði alltaf að gera litabók fyrir fullorðna en kom því aldrei í verk. Teikningar söfnuðust því upp en enginn tími gafst til að gera heila litabók. Mér datt því í hug að taka fimm fuglateikningar, prenta þær stórar, setja á vegg og gera þannig vegglitabók,“ segir Ingunn um tilurði sýningarinnar.

„Feitir fuglar eru oftast fyndnastir“
Ingunn segir sýninguna vera gagnvirka tilraun til þess að fá áhorfendur til að taka þátt í að færa líf í annars litlausar svart hvítar myndir. „Skemmtilegt væri að stilla upp myndavél og taka svokallað „time lapse“ þar sem litirnir smám saman færast inn í fuglana eftir því sem á líður. Börn mega endilega taka þátt líka. Þetta eru ekki sparimyndir sem krakkar mega ekki koma nálægt, allir mega vera virkir þátttakendur.

Mér finnst mjög skemmtilegt að teikna fugla. Þeir eru oft svo kómískir í bæði lögun og útliti og margir skemmtilega svipsterkir, svo kemur þessi goggur sem gefur hverri fuglategund sitt sérkenni. Ég útfæri þá nú bara eftir mínu nefi. Þessar teikningar eru ekki fullkomin eftirlíking af ákveðinni tegund heldur frekar hvernig ég sé fuglana. Feitir fuglar eru oftast fyndnastir.“

Væri gaman að sjá sambærilegt verkefni á stærri flugvöllum
Litabækur fyrir fullorðna hafa verið gríðarlega vinsælar undanfarin misseri. „Að lita í litabók á að vera róandi og hálfgerð íhugun. Litabækur hafa meira að segja verið notaðar í sálfræðimeðferðum gegn streitu og kvíða. Þar sem mér finnst alveg einstaklega leiðinlegt að fljúga og þá sérstaklega biðin á flugvöllunum þá hugsaði ég með mér að þetta gæti verið ekta verkefni til að láta tímann líða aðeins hraðar.

Markmiðið með sýningunni er líklega það að biðtíminn styttist, svona í huganum. Ég mjög spennt að sjá útkomuna. Það væri æðislega gaman að gera þetta verkefni á enn stærri flugvelli en á Egilsstöðum og með ennþá fleiri teikningum, ég tala nú ekki um flugvelli eins og til dæmis Heathrow eða Charles de Gaulle.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.