Svona hefna Eskfirðingar sín á Norðfirðingum?

Eskfirðingar og Norðfirðingar hafa löngum eldað grátt silfur saman. Skipverjar á Aðalsteini Jónssyni, flaggskipi eskfirska flotans, láta ekki sitt eftir liggja ef marga má lýsingar sagnfræðingsins og stórbloggarans Stefáns Pálssonar.

 

Stefán, sem er giftur Steinunni Þóru Árnadóttur frá Norðfirði, var nýlega þar í fríi. Hann segist hafa snarlega tekið þátt í þjóðarsportinu – að hæðast að Eskfirðingum.

„Hálfur Eskifjarðarbær var með í maganum, líklega eftir að e-r hafnarstarfsmaðurinn hafði ákveðið að tengja kjölsvínið á e-m togaranum við næsta brunahana með haugsugu og ýta á play…

Þetta kallaði augljóslega á marga ódýra og ósmekklega brandara um liðið hinu meginn við gatið og þá áráttuhegðun þess að kunna ekki muninn á “inn” og “út” á venjulegum rofum (sbr. klórgasmálið í sundlauginni um árið),“ bloggar Stefán.

Einn daginn sigldi Aðalsteinn Jónsson inn á Norðfjörðinn og bæjarbúar fylgdust með.

„Togarinn sigldi nánast inn að hafnarkjaftinum, en sneri þar við og stýrði ákveðið til móts við miðbæinn í Neskaupstað og staðnæmdist rétt fyrir utan gömlu bryggjuna. Þar byrjaði hann að dæla og út fyrir borðstokkinn stóð blóðlituð spýjan. Á svipstundu breyttist fjörðurinn í senu úr Fuglunum eftir Hitchcock. Á einhvern óskiljanlegan hátt birtust mörghundruð mávar - eins og úr lausu lofti (enda komu þeir úr lausu lofti).

Þegar blóðflekkurinn var orðinn dálaglegur og fuglagargið eflaust farið að æra fólk í húsunum næst bakkanum, tók togarinn af stað og stímdi út fjörðinn.

Líklega hafa einhverjir Norðfirðingar verið að hafa eftir svipaða brandara og við landkrabbarnir - nema í talstöðina. Og Eskfirðingarnir ákveðið að sýna puttann á móti. Það er önnur gömul þjóðaríþrótt…“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.