Sviptingar í sveitastjórnum

Enginn fulltrúa Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar gefur kost á sér til áframhaldandi setu eftir kosningarnar í vor. Hreyfing er einnig á bæjarfulltrúum á Fljótsdalshéraði.

 

Stærstu tíðindin af Fjarðalistanum er brotthvarf Smára Geirssonar sem setið hefur í bæjarstjórn samfellt frá árinu 1982. Í nýjasta tölublaði Austurgluggans er greint frá því að Smári ætli í sagnfræðinám í Noregi.

Hinir bæjarfulltrúarnir þrír, Díana Mjöll Sveinsdóttir, Guðmundur R. Gíslason og Sigrún Birna Björnsdóttir eru einnig öll á útleið. Ekkert þeirra útilokar frekari stjórnmálaafskipti síðar.

Hjá Sjálfstæðisflokknum á Fljótsdalshéraði hefur Þráinn Lárusson ákveðið að hætta og sögur eru á kreiki um að Soffía Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar, haldi ekki áfram.

Oddviti Héraðslistans í seinustu kosningum, Baldur Pálsson, formaður bæjarráðs ætlar ekki að halda áfram. Héraðslistinn undirbýr framboð til sveitarstjórnar í vor og málefnavinna er farin í gang.

Björn Ármann Ólafsson, oddviti Framsóknarflokksins á Héraði, er sömuleiðis hættur. Framboðsfrestur fyrir prófkjör flokksins rennur út fyrstu helgina í febrúar en kosið verður fyrstu helgina í mars. Ekki er heldur ljóst hvað hinir bæjarfulltrúarnir tveir, Jónas Guðmundsson og Anna Sigríður Karlsdóttir, gera.

Sögur eru einnig á kreiki um að Gunnar Jónsson og Sigvaldi Ragnarsson, Á-listanum, fari út. Bæjarstjórinn, Eiríkur Björn Björgvinsson, er sagður hugsa sér til hreyfings og hefur Akureyri verið nefnd sem líklegur áfangastaður hans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.