Sveppabók Helga tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna

helgi_hall.jpgSveppabókin - Íslenskir sveppir og sveppafræði, eftir náttúrufræðingin Helga Hallgrímsson á Egilsstöðum, var í gær tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita. Fjórar aðrar bækur eru tilnefndar í flokknum.

 

Sveppabókin er frumsmíð um sveppafræði á íslensku og byggist meðal annars á hálfrar aldar rannsóknum höfundar á sveppum.

Í fyrri hluta bókarinnar er fjallað um eðli og gerð sveppa og hlutverk þeirra í lífkerfi jarðar, meðal annars um sníkjusveppi, svepprætur, samkipti sveppa og dýra og sveppasprettu á Íslandi. Sagt er frá viðhorfi manna til sveppa og rakin saga svepparannsókna, sérstaklega á Íslandi. Þá er rætt um matsveppi og eitursveppi og nýtingu myglusveppa.

Í síðari hluta er fjallað um alla flokka sveppa sem þekkjast á Íslandi. Um 700 tegundum er lýst, þar af um 300 ýtarlega, en alls er getið meira en 1000 tegunda. Litmyndir eru af um 540 tegundum. Alls eru um 640 litmyndir í bókinni, þar af 35 heilsíðumyndir, auk þess um 150 teikningar og svarthvítar myndir.

Allir íslenskir matsveppir fá ýtarlega umfjöllun í bókinni, svo og nokkrir vel þekktir erlendir matsveppir og eitursveppir.

Í bókinni er að finna mikinn fjölda nýrra sveppanafna og fræðiorða. Í bókarkynningu segir að hún sé ætluð almenningi jafnt sem fræðimönnum. Vonast er til að bókin verði til að auka áhuga manna á sveppum og nýtimngu þeirra. Einnig ætti hún að geta orðið kennurum og nemendum á öllum skólastigum að gagni.

Auk bókar Helga eru tilnefndar í flokknum ævisaga Gunnars Thoroddsen, sem Guðni Jóhannesson hefur skráð, Saga hjúkrunar á Íslandi á 20. öld eftir Margréti Guðmundsdóttir, saga Þóru biskups eftir Sigrúnu Pálsdóttur og Sögustaðir eftir Einar Fal Ingólfsson.

Dómnefndina skipuðu Salvör Aradóttir, leikhúsfræðingur og þýðandi sem var formaður, Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst og Þorgerður Einarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands. Úrslitin verða kunngjörð á nýju ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.