„Sumir dagar voru erfiðari en aðrir“

„Líklega gáfu ljóðrænurnar mér einna helst aðra sýn á hversdagsleikann, á daglegt líf mitt. Sömuleiðis þótti mér vænt um þegar vinir mínir véku sér að mér, bæði á samskiptamiðlum og í búðinni, og þökkuðu eða hrósuðu ljóðrænu dagsins, það var hvetjandi á allan hátt,“ segir Björg Björnsdóttir á Egilsstöðum, sem hefur skrifað stuttan skapandi texta og birt á samfélagsmiðlum sínum hvern dag síðastliðið ár.


Björg Björnsdóttir, Mannauðsstjóri Skógræktarinnar og bæjarfulltrúi á Egilsstöðum, greindi frá því á Facebooksíðu sinni í morgn að í dag sé ár liðið frá því að hún setti sér það markmið að skrifa það sem hún kallaði „ljóðrænu dagins“ einu sinni á dag í 365 daga. Afraksturinn birti hún alla dagana bæði á Twitter og Facebook. Austurfrétt lék forvitni á að vita hvernig hugmyndin kviknaði og hvernig til tókst?

„Ég hef alltaf haft gaman af texta, bæði lestri og skriftum. Þegar Herborg Eðvaldsdóttir, æskuvinkona mín héðan frá Egilsstöðum, var í meistaranámi sínu við Listaháskóla Íslands var ég svo heppin að fá að fylgjast með framgangi lokaverkefnis hennar sem fjallaði um flæði eða myndun flæðis í listsköpun. Niðurstöður ritgerðarinnar eru meðal annars þær að það, að kanna möguleika efnis í gegnum flæði, sé góð leið til að koma manni af stað í hugmyndavinnu, kveikja nýja hugsun og færa mann á nýjar og áður óþekktar slóðir. Eða í stuttu máli, stundum er ekki nauðsynlegt í upphafi ferðalags að vita hvert lokatakmarkið er. Mér fannst þetta áhugaverð hugmynd, því þegar ég skrifa, veit ég yfirleitt hver niðurstaðan á að verða. Ég hef ákveðinn ramma í huga sem ég skrifa svo bara inn í. Mig langaði að reyna að brjótast út úr þessum ramma, örva hjá mér skapandi hugsanir með þessari aðferð flæðis og fyrir valinu varð að skrifa daglega í eitt ár stuttan texta sem ég kallaði ljóðrænu dagsins. Ég valdi að skrifa hverja færslu á twitter því þá var lengd textans afmörkuð. Hver twitter-færsla birtist einnig á fésbókarsíðu minni.“

Lítur ekki á ljóðrænu dagsins sem ljóð
Björg segist ekki hafa verið vön að skrifa ljóð. „Nei, ég var það ekki. Og ég lít í rauninni ekki á ljóðrænu dagsins sem ljóð, því ég hefði líklega yddað þessa texta mun meira ef ég hefði hugsað þá sem ljóð. Í byrjun, var ég mjög meðvituð um að ég yrði að semja ljóðrænu undir lok dagsins og var þá jafnvel að velta fyrir mér hugmyndum eða orðalagi allan daginn. Að því leytinu komst þetta í æfingu, því þegar á leið kom það reglulega fyrir að ég sat að kveldi og mundi skyndilega að ég ætti eftir að semja ljóðrænu. Og þá var bara að láta vaða.“

„Sumir dagar voru erfiðari en aðrir“
Hvernig gekk að halda sér að verki og klára áskorunina? „Það skal viðurkennt að sumir dagar voru erfiðari en aðrir. Þá rann það upp fyrir mér þegar ég ætlaði að ganga til náða að ég átti eftir að semja ljóðrænuna. Stundum komu hugmyndirnar af sjálfu sér, eitthvað sem ég hafði séð eða upplifað þann daginn, en stundum greip ég líka í tómt. Og þá reyndi ég að nýta mér þessa flæðishugsun, setti kannski niður eitt orð og beið svo rólega eftir því að sjá hvað það myndi fæða af sér.“

Aðspurð að því hvort Björg sjái fyrir sér að gera eitthvað með það sem komið er segir hún; „Þetta er góð spurning sem ég hef bara ekki svar við, eins og stendur. Hver veit? Ég geri ekki ráð fyrir að halda áfram með daglegar ljóðrænur. En mig langar vissulega til að halda áfram með einhvers konar skrif. Ég mæli svo sannarlega með því að fólk opni fyrir sínar skapandi hliðar því þær höfum við öll. Það sem við gerum þarf ekki alltaf að vera fullkomið, bara einlægt og satt.“

Hér að neðan má sjá síðustu ljóðrænur Bjargar

5. nóvember
Ég rifja upp hugarástandið. Sársauki, gleði, kyrrð, órói, vesöld, undrun og hamingja. Ramminn, kröftug öfl veraldarinnar. Ár í lífi konu. #ljóðrænadagsins

4. nóvember
Það snarkar í glóðunum og syngur í prjónunum. Úti er vetur. #ljóðrænadagsins

3. nóvember
Það kyngir niður snjó. Sporin mín eru fljót að hverfa en ég þumbast við, hring eftir hring. Allt kemur fyrir ekki. Náttúran hefur betur að þessu sinni. #ljóðrænadagsins

2. nóvember
Geislar sólarinnar laumast láréttir inn. Arið flögrar um, glettnislega. Eins og dimmar vetrarnætur séu enn langt undan. #ljóðrænadagsins

1. nóvember
Í morgun var þunn snjóbreiða á gangstéttinni. Frostið gerði úr því hröngl sem hvíslaði að mér orðum í hverju skrefi. Ævintýri á gönguför. #ljóðrænadagsinsDemo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.