„Stundum þarf maður bara að vera rosa hugrakkur með sjálfan sig“

„Draumurinn minn hefur alltaf verið að gefa út mitt eigið efni,“ segir tónlistarkonan Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir, en hennar fyrsta lag, sem ber titillinn The end, kom út í febrúar.


Aldís Fjóla, sem er frá Borgarfirði, samdi bæði lag og texta, en hljóðfæraleik og upptöku annaðist Stefán Örn Gunnlaugsson og hljómjöfnun var í höndum Sigurdórs Guðmundssonar hjá Skonrokk Studios.

Aldís Fjóla segist alltaf hafa stefnt að því að gefa út sitt eigið efni. „Þetta ævintýri hófst nú bara þannig að ég ákvað að hringja í Stefán því mér finnst hann alger snillingur og með því hófst þetta magnaða samstarf sem verður vonandi til þess að ég gef út sólóplötu í lok þessa árs. Ég sendi honum tvö lög sem hann útsetti á þennan stórkostlega hátt, en ég bjóst hreinlega ekki við því að lögin mín gætu verið svona rosalega góð,“ segir Aldís Fjóla.

Aldís Fjóla segir það hafa tekið á að stíga þetta skref. „Það er stórmál að þora að taka skrefið og gefa út sín lög með sínum tilfinningum. Þetta lag fæddist fyrir einu og hálfu ári og mig hefur allan tímann langað að gefa það út, en verið hikandi að senda það frá mér. Svo kom bara eitthvað hetjumóment þar sem ég ákvað að hafa samband við einhvern sem gæti hjálpað mér. Stundum þarf maður bara að vera rosa hugrakkur með sjálfan sig til þess að koma einhverju í gang.“

Misjafnt hvernig lög og textar fæðast
Búið er að taka upp tvö lög og það þriðja er í vinnslu. „Svo kom upp sá bobbi að ég þyrfti að semja fleiri lög. Við eigum tvö í bankanum og hin koma svo bara þegar þau koma,“ segir Aldís, en aðspurð að því hvernig lögin komi til hennar, segir hún;

„Þetta lag kom þegar ég sat við píanóið í tónlistarskólanum á Vopnafirði og var að leika mér með hljóma af öðru lagi, þá fæddist þetta lag og textinn kom til mín á sama tíma, en það gerist mjög oft þannig. Stundum fæðast lagabútar þegar ég er til dæmis í bílnum á leiðinni í vinnuna, einhver lína sem ég þarf þá að taka upp á símann minn og líta á síðar. Þegar ég ferðaðist um Asíu fyrir tveimur árum var ég alltaf með bók á mér þar sem ég skrifaði í texta þegar eitthvað kom til mín, en ég er mikið að vinna úr þeim núna. Stundum kemur þetta bara allt í einu og er fullunnið eftir klukkutíma, en það er alveg magnað þegar það gerist.“

Loksins, loksins!
Aldís segir það vera ólýsanlega tilfinningu að vera loksins komin með sína tónlist í hljóðver. „Það var ótrúlegt þegar ég ýtti á takkann og sendi þetta út í alheiminn, lagið er bara eins og barnið manns. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er að gera tónlist þar sem ég þarf að koma frá mér sem er algerlega frá mínu hjarta, en það er ótrúlega hollt og heilandi ferli.

Ég hef fengið alveg rosalega góð viðbrögð, mínir nánustu vissu reyndar alveg að ég gæti þetta, ég þurfti bara að átta mig á því sjálf. Orðið „loksins“ hefur verið það algengasta, en þetta er eitthvað sem ég hef ætlað að gera frá því ég var lítil og fólkið í kringum mig er mjög stolt af því að það sé loks orðið að veruleika."

„Maður þarf að setja sig í markaðsdeildargírinn“
Lagið er bæði komið út á Youtube og Spotify. „Erfiðasti hlutinn er að reyna að markaðssetja sjálfan sig, það er hark. Ég er mjög stolt af því að vera komin í spilun á Rás2 og á N4, Spotify-hlustendum er alltaf að fjölga og myndbandið, sem snillingurinn og frænka mín Ingibjörg Torfadóttir gerði, fær mjög góð viðbrögð. Maður þarf að setja sig í markaðsdeildargírinn og senda lagið út um allt, en það er heilmikill lærdómur og vinna fólgin í því sem verður allt saman mun auðveldara með næsta lagi.“

Ljósmynd: Íris Ösp/Punkland

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar