Stærsta messa sem haldin hefur verið á Austurlandi: 600 manns á landsmóti

landsmot_aeskulydsfelaga_2012.jpg
Nýr vígslubiskup á Hólum, séra Sólveig Lára Guðmundsdóttir stýrir á sunnudag stórmessu í Íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Messan er hluti af dagskrá Landsmóts æskulýðsfélaga sem þar fer fram um helgina. Messan er opin öllum.

Unglingar af öllu Austurlandi taka virkan þátt með flutningi bæna og ritningarlesturs og unglingarnir á Vopnafirði í æskulýðsfélaginu, Kýros,  munu syngja lagið „Traustur vinur“. Hljómsveitin Tilviljun sér um tónlist og undirspil og vígslubiskup Hólastifts, sr. Sólveig Lára Guðmundsdóttir prédikar.

Um 600 þátttakendur er skráðir á Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar sem sett var í kvöld og er því messan einn  stærsti kirkjulegi viðburður ársins. Messan á sunnudag verður sú stærsta sem haldin hefur verið á Austurlandi og þetta er næst fjölmennasta landsmótið til þessa.

„Unglingarnir eru allir eru virkir í æskulýðsstarfi kirkjunnar og þau koma á landsmót til að skemmta sér og fræðast, uppbyggjast í trúnni og láta gott af sér leiða. Það má því segja að á landsmótinu á Egilsstöðum verði bæði fjölmennt og góðmennt um helgina,“ segir í fréttatilkynningu.

H2Og – brunnar sem bjarga

Yfirskrift Landsmótsins 2012 er H2Og. Það vísar til þess að unglingarnir ætla að safna fé fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Chikwawa héraði í Malaví.

Þar er lífsafkoma afar erfið og aðgangur að hreinu vatni takmarkaður og jafnvel enginn. Með því að grafa brunna sem gefa hreint vatn gefst íbúum héraðsins tækifæri til betra lífs.

Krakkarnir á Landsmótinu ætla að safna fé sem dugar til að grafa að minnsta kosti einn brunn ásamt því að geta keypt grænmetisfræ, geitur og hænur handa þeim sem verst eru staddir.

Góðir gestir frá Malaví, þau Innocent og Donai, heimsækja Landsmótið og taka þátt í dagskránni. Þau munu koma að fræðslustund á laugardegi, en undanfarnar vikur hafa þau ferðast um landið og hitt fermingarbörn. Dagskrá verður fjölbreytt að vanda, haldið verður sundlaugarpartý og búningaball og boðið upp á ýmiss konar starf í hópum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.