Stefnir á að skrifa söguna sína

„Röð áfalla síðustu fimm ára gerðu það að verkum að sjálfsmat mitt og sjálfstraust rann hratt og örugglega út í sandinn með þeim afleiðingum að í svartasta skammdeginu sá ég ekki tilgang með lífinu,“ segir Vopnfirðingurinn Margrét Gunnhildur Gunnarsdóttir, sem ætlar að flytja erindið „Að finna aftur lífsviljann“ í Kaupvangskaffi á Vopnafirði á föstudagskvöldið klukkan 20:00.


Margrét þurfti að berjast fyrir því í tvö og hálft ár að komast í aðgerð vegna svæsinnar hryggskekkju. Árið 2014 komst hún svo í aðgerð í Malmö í Svíþjóð þar sem hryggurinn á henni var allur spengdur. „Já, líf mitt tók óvænta stefnu fyrir nokkrum árum sem leiddi mig í líkamlegt og andlegt þrot. Líflínan mín voru börnin mín, fjölskylda og allra nánustu vinir sem studdu mig í gegn um súrt og sætt og svo fólkið í mínum heimabæ, Vopnafirði,“ segir Margrét, sem búsett er á Akureyri ásamt börnum sínum tveimur.

Markþjálfun er einkaþjálfun fyrir hugann
Margrét var að útskrifast úr markþjálfanámi hjá Evolvia og segir sig lengi hafa langað að þakka Vopnfirðingum stuninginn gegnum árin og nú sé hún tilbúin til þess eftir afar erfitt tímabil.

„Ég á ekki orð yfir þær breytingar sem orðið hafa á mér síðustu mánuði, þökk sé markþjálfunarnáminu. Markþjálfun er ekki ráðgjöf eða handleiðsla heldur er gert ráð fyrir að marksækjandinn sé sérfræðingur í eigin lífi. Einblínt er á jákvæða þætti og möguleika en hindranir settar til hliðar. Markþjálfun er einskonar einkaþjálfun fyrir hugann sem byggist á samtalstækni sem getur hjálpað hverjum sem er. Þjálfunin kemur í veg fyrir að fólk festist í viðjum vanans og reki stjórnlaust áfram í eigin lífi. Í raun má segja að markþjálfun hjálpi fólki að grípa í stýrið og fá meira út úr lífinu. Hvort heldur sem fólk vill breyta, bæta eða láta drauma sína rætast. Það skiptir ekki máli hversu hratt þú hleypur ef þú veist ekki hvert þú ert að fara,“ segir Margrét.

Markmiðið að þakka Vopnfirðingum stuðninginn
Margrét segir aðalmarkmið fyrirlestursins sé að þakka Vopnfirðingum ómetanlegan stuðning síðustu ár. „Ég fer yfir söguna og segi frá þessari baráttu og röð áfalla sem ég hef tekist á við síðustu árin. Síðan er líka markmiðið í sjálfu sér að segja fólki hvernig ég vann mig út úr þessu fórnarlambs hlutverki með aðstoð markþjálfunarnámsins. Að manneskja með svona sögu eigi sér viðreisnar von, að ég hafi gripið um pennan og ætli að skrifa mína æfisögu sjálf en ekki láta utanaðkomandi aðstæður stjórna lífi mínu,“ segir Margrét sem er að fara í áframhaldandi nám í markþjálfun í haust.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar