Staða íslenskra hafna bágborin

Fjórði hafnarfundur Hafnasambands Íslands var haldinn í dag í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði. Á fundinn mættu hátt í 60 fulltrúar frá öllum landshlutum. Að loknum fundinum var farið með fulltrúana í kynnisferð um Fjarðabyggð en dagurinn endaði með móttöku í Randúlfssjóbúð.   Gísli Gíslason, formaður stjórnar Hafnasambands Íslands segir hag íslenskra hafna bágborinn.

hafnarfundur.jpg

,,Það fer vel á því að halda þennan hafnafund hér í Fjarðabyggð þar sem auðlindir hafs og

lands eru grundvöllur vaxandi samfélags,“ sagði Gísli Gíslason, formaður Hafnasambands Íslands í setningarávarpi sínu. ,,Útflutningsverðmæti sjávarafla og iðnaðarvöru skipa sveitarfélaginu í fremstu röð þeirra staða sem afla þjóðarbúinu tekna og starfsemi hafna Fjarðabyggðar gegnir sem fyrr lykilhlutverki í efnahagslífi sveitarfélagsins.“

  

Hagur hafna enn bágborinn

Gísli sagði að þrátt fyrir mikilvægi hafna og þó svo að víða hafi verið ágætis umsvif í móttöku á afla,

hvort heldur er frá stærri útgerðum eða strandvæðum smábáta, sé hagur hafna enn sem fyrr bágborinn.

,,Vandi hafna skýrist e.t.v. af þremur megin atriðum: Skuldsetningu, lágum tekjum og smæð of margra hafna. Verðbólga og gengisfall skrúfa upp skuldabyrði hafnanna þannig að lágar tekjur halda engan veginn í við þróun skulda og fjármagnskostnaðar. Möguleikar hafna til þess að halda við mannvirkjum eru afar takmarkaðir þrátt fyrir ríkisframlög og smæð margra hafna gerir þeim ókleift að ráðast í nauðsynlegar en kostnaðarsamar aðgerðir. Um þessar mundir er nefnd samgönguráðherra að störfum um fjárhag hafna og þar sitja m.a. tveir fulltrúar Hafnasambands Íslands. Verkefni nefndarinnar er í senn mikilvægt en flókið, en mikilvægt er að nefndinni auðnist að setja fram ákveðin leiðarljós fyrir samgönguráðherra og hafnirnar til að fylgja í því skyni að hafnarrekstur geti þróast á eðlilegum rekstrarforsendum. Í þessu efni verður ekki eingöngu litið til forsjár ríkisins heldur einnig þess sem hafnirnar sjálfar geta gert til þess að styrkja stöðuna. Þau málefni sem fjalla þarf um eru m.a. tekjugrunnur hafna og nýting gjaldtökuheimilda, sameining og aukið samstarf hafna, framhald ríkisstyrkja og kostnaður hafna af starfsemi ríkisins svo sem fiskveiðistjórnunarkerfinu. Engin einhlít lausn er á vanda hafnanna, en mikilvægt er að snúa vörn í sókn þar sem því verður við komið. Skoða þarf sérstaklega stöðu þeirra hafna sem óhjákvæmilegt er að gegni áfram hlutverki sem hluti af innviðum byggða og samganga.

 

Á árinu 2008 var samgönguráðuneytinu sent erindi varðandi álagningu aflagjalds þar sem óskað var álits á verðmætatengingu aflagjaldsins og vilyrðis ráðaneytisins um breytingu á hafnalögum ef telja mætti að verðmætatengingin stæðist ekki lög. Nú hefur svar samgönguráðuneytis borist og skýrt kveðið að orði með að vilji sé til þess að tryggja lögmæti verðmætatengingarinnar í hafnalögum. Vonast er til þess að nú þegar á haustþingi verði málið afgreitt og allri óvissu þar af leiðandi eytt varðandi þetta mál, sem skiptir hafnirnar miklu máli. Annað mál er þó enn sem fyrr í hálfgerðri sjálfheldu en það varðar kostnað og þær kröfur sem gerðar eru til hafna varðandi vigtun sjávarafla. Stjórn Hafnasambands Íslands hefur leitað eftir upplýsingum hafna um kostnað við vigtun sjávarafla, en skil á gögnum verið misjöfn. Til þess að unnt sé að leiða fulltrúum sjávarútvegsráðuneytisins skýrt fyrir sjónir að hafnirnar beri talsverðan kostnað af regluverki ríkisins við eftirlit með fiskveiðistjórnunarkerfinu er brýnt að hafnirnar sendi umbeðnar upplýsingar. Af hálfu Hafnasambands Íslands hefur þeirri sanngirniskröfu verið haldið fram að ríkið eigi að sjálfsögðu að greiða höfnunum eðlilegt endurgjald fyrir ábyrgð hafnanna, fjárfestingu og rekstur, sem að hluta er vegna skráningar og upplýsinga, sem eingöngu eru í þágu ríkisins.“

-

Mynd/Ingibjörg Hinriksdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.