Söguspor á Vopnafirði

Glöggir gestir á Vopnafirði kunna að hafa tekið eftir litríkum fótsporum sem feta sig eftir gangstéttum þorpsins. Fótsporin eru hluti af verkefninu „Vappað um Vopnafjörð“ sem ætlað er að vekja athygli á bæði sögu staðarins og lífinu þar.

Verkefnið „Vappað um Vopnafjörð“ á sér nokkurn aðdraganda. Það má rekja til lokaritgerðar sem Berghildur Fanney Hauksdóttir skrifaði í námi sínu í ferðamálafræði, samhliða því sem hún var formaður ferðamálanefndar Vopnafjarðarhrepps.

Rannsókn hennar leiddi í ljós að það sem Vopnfirðingar vildu helst sýna gestum sínum var saga staðarins og náttúran. Því var farið í að koma sögunni á framfæri og sumarið 2017 var annars vegar komið upp söguskiltum í firðinum, hins vegar gefinn út bæklingurinn „Vappað um Vopnafjörð“ með fróðleik um sögu staðarins og gönguleiðum.

Í bæklingnum má meðal annars finna upplýsingar um sjósókn Vopnfirðinga, verslunarsögu, Sláturfélagið og skóla staðarins.

„Fólki sem kemur hingað finnst merkilegt að í svona litlu samfélagi sé skóli, leikskóli og heilsugæsla. Við viljum koma því á framfæri hvað samfélagsheildin hefur mikið að segja, því hún hefur alltaf verið sterk hér.

Hér voru til dæmis tvö kvenfélög og það voru þau sem byrjuðu að safna fyrir elliheimilinu. Það sem starfaði í þorpinu byrjaði á barnaheimilinu. Við viljum því bæði segja söguna og frá lífinu í íslensku sjávarþorpi,“ segir Berghildur Fanney.

Í vor voru síðan sporin máluð á gangstéttarnar til að leiða gesti á milli söguskiltanna. „Við höfum oft séð fólk á göngu stoppa við skiltin til að lesa þau en það áttar sig ekki á að þau séu hluti af gönguleið.

Markmiðið er að leiða fólk áfram þannig það sjái ekki bara eitt skilti heldur heildina. Fólk tekur eftir því sem er óvenjulegt í umhverfinu. Við vitum að það eru skiptar skoðanir um hvort sporin séu falleg, en við þurfum að vera móttækileg fyrir því sem er er öðruvísi og vekur áhuga.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.