Íslenskum skipum heimilt að veiða álíka af makríl og í fyrra

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði í dag reglugerð um makrílveiðar íslenskra skipa á þessi ári. Miðað er við að heildarafli á árinu fari ekki yfir 112.000 tonn, þar af 20.000 tonn á alþjóðlegu hafsvæði utan lögsögu ríkja. Fari aflinn yfir þetta magn mun ráðherra ákveða hvort gripið skuli til veiðibanns eða takmarkana. Þetta er svipað magn og veiddist í fyrra.

fiskur.jpg

Fréttatilkynning ráðuneytisins frá því fyrr í dag er svohljóðandi:

„Í dag hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gefið út reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2009. Reglugerðin tekur til veiða í íslenskri lögsögu sem og á alþjóðlegu hafsvæði. Í reglugerðinni segir að fari heildarafli íslenskra skipa í makríl á árinu 2009 yfir 112.000 lestir, þar af 20.000 lestir á alþjóðlegu hafsvæði utan lögsögu ríkja, ákveði ráðherra hvort veiðar á makríl skuli bannaðar eða takmarkaðar með einhverjum hætti. Þetta er um það bil sami afli og veiddur var á síðustu vertíð.



Um árabil hafa íslensk stjórnvöld mótmælt veiðistjórnun NEAFC á makríl og er Ísland því ekki bundið af henni. Mótmælin hafa verið sett fram á grunni þess að hingað til hefur strandríkjaréttur Íslands ekki verið viðurkenndur af öðrum strandríkjum. Ástæða er til að ætla að réttur Íslands verði viðurkenndur, m.a. í ljósi aukinna veiða í íslenskri lögsögu, og Ísland muni því í náinni framtíð verða fullgildur þátttakandi í samningaviðræðum um veiðistjórnun á makríl.



Fyrir liggur að mikil verðmæti liggja í nýtingu markrílstofnsins og þá ekki síst til manneldis. Á síðasta ári fóru liðlega 5% af heildarmakrílafla íslenskra skipa til vinnslu til manneldis sem skilar umtalsvert meiri verðmætum en fari aflinn til bræðslu og er auk þess meira í anda sjálfbærrar þróunar. Er því sérstaklega hvatt til þess af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að útgerðir leitist við að vinna sem mest af makrílafla sínum til manneldis. Þá er það skoðun ráðherra að þegar og ef til úthlutun aflahlutdeildar komi,  þurfi að eiga sér stað málefnaleg umræða, hvort taka eigi tillit til að hvaða marki veiðiskip hafi eða geti veitt makrílafla til manneldis og þá hvort þau njóti þess  sérstaklega við úthlutun.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.