Sækja um lóð fyrir olíubirgðastöð í Reyðarfirði

Verkfræðistofan Mannvit hefur sótt um lóð fyrir 244.000 rúmmetra olíubirgðastöð á Reyðarfirði, fyrir hönd Atlantic Tank Storage og var fjallað um umsóknina í umhverfisnefnd Fjarðarbyggðar í gær. Birgðastöðin er hönnuð fyrir geymslu á almennum olíuvörum þ.m.t.  bensíni, gasolíu og jarðolíu og er gert ráð fyrir að í stöðinni verði um 13 geymar. Áætlaður byggingartími er 15-18 mánuðir og er gert ráð fyrir 120 til 150 ársverkum við byggingu stöðvarinnar. Þegar byggingunni er lokið munu þrír til fimm starfsmenn annast reksturinn.

olutankar.jpg

 

Stöðin verður rekin sem tollvörugeymsla og birgðastöð fyrir olíuvörur sem eru á leið á markaði í Ameríku og Evrópu og hún getur einnig nýst í tengslum við fyrirhugaða olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Gert er ráð fyrir að stöðin geti bæði tekið á móti jarðolíum og unnum olíuvörum eins og bensíni.

Í tilkynningu frá Mannviti og Atlantic Tank Storage segir að Reyðarfjörður hafi marga kosti fyrir þjónustu sem þessa.  Þar  er höfn fyrir stór olíuskip með 14,3 m djúpristu. Ennfremur hefur Reyðarfjörður öfluga dráttarbátaþjónustu, gott slökkvilið og almenna tækniþjónustu. Síðast en ekki síst er Reyðarfjörður vel staðsettur með tilliti til olíumarkaða í Bandaríkjunum og Evrópu enda liggur Reyðarfjörður vel við skipaleiðum til stórra olíuhafna í Rotterdam, Mongstad og Murmansk. Fjarðabyggð hefur skapað gott umhverfi fyrir iðnað að þessu tagi með skipulögðu iðnaðarsvæði fyrir hafnsækna starfssemi og aðlaðandi umhverfi fyrir fjárfesta.

Hugmyndin að þessu verkefninu kviknaði fyrir tveimur árum og hefur Mannvit unnið markvisst að undirbúningi þess frá því í september 2008. Mannvit kynnti verkefnið fyrir Atlantik Tank Storage í janúar síðast liðnum og hafa fyrirtækin skrifað undir samstarfsamning um verkefnið. Verkfræðistofan Mannvit er stærsta ráðgjafafyrirtæki landsins á sviði verkfræði og tækni með starfsstöðvar á níu stöðum utan höfuðborgarinnar. Þá er fyrirtækið með fjölmörg verkefni erlendis meðal annars í gegnum dótturfyrirtæki í Ungverjalandi. 

Á liðnum árum hefur Mannvit sinnt mörgum verkefnum fyrir íslensku olíufélögin og hafa starfsmenn Mannvits meðal annars komið að hönnun, byggingu og endurbótum fjölda olíubirgðastöðva á Íslandi.Atlantic Tank Storage er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 2006. Fyrirtækið leigir og rekur þrjár olíubirgðastöðvar á Íslandi , tvær í Hvalfirði, eina í Helguvík auk einnar birgðastöðvar í Noregi.  Fyrirtækið er í meirihlutaeigu stærsta olíugeymslufyrirtækis Svíþjóðar, Scandinavian Tank Storage, en það á og rekur birgðastöðvar á Norðurlöndunum og þjónar þar mörgum af stærstu olíufyrirtækjum Evrópu. Hjá fyrirtækjunum tveimur starfa um 30 manns.

 

Valgeir Kjartansson frá Mannviti kynnir hugmyndir af olíubirgðastöð við Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd Fjarðabyggðar 22. apríl. Nefndin er skv. fundargerð jákvæð gagnvart framkomnum hugmyndum og telur að þær rýmist innan gildandi aðalskipulags. Nefndin bendir þó á að vinna þurfi deiliskipulag fyrir innra svæði Mjóeyrarhafnar, sem og að gera þurfi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.